Atli Kristjánsson hefur verið dæmdur 15 mánaða fangelsi af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot sem hann framdi sumarið 2021.
Atli var ákærður fyrir líkamsárás, utan við íþróttahús á Seltjarnarnesi, með því að hafa veist með ofbeldi að manni, og slegið hann með krepptum hnefa í höfuð þannig að maðurinn féll aftur fyrir sig í götuna, með þeim afleiðingum að hann hlaut brot á fjarlæga hluta sveifarbeins vinstri handar, bólgu yfir vinstra kinnbeini og hrufl á hægri hendi.
Þá var hann einnig ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa í kjölfarið af hinni árásinni veist með ofbeldi að manni, slegið hann hnefahöggi í höfuð og stungið hann einu sinni með hnífi í vinstri síðu, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut langan og djúpan gapandi skurð á bakvegg brjóstkassa með seytlandi blæðingu út frá skornum bakbreiðavöðva og einhliða lungnamar.
Atli játaði brot sín en hann hefur í tvígang áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Einu sinni fyrir brot gegn valdstjórninni og einu sinni fyrir líkamsárás. „Þá er langt um liðið síðan brot ákærða var framið og verður honum ekki kennt um drátt málsins. Var hann einungis 18 ára þegar brotið var framið en er nú orðinn 22 ára og hefur í millitíðinni lokið námi,“ segir meðal annars í dómnum.
Dómur Atla er skilrorðsbundinn til þriggja ára og þarf hann að greiða öðrum manninum 600.000 krónur með vöxtum og hinum 1.500.000 krónur með vöxtum og málskostnað beggja.

Komment