
Átta mánaða stúlka, Rahaf Abu Jazar, lést af völdum kulda í tjaldabúðum í Khan Younis á Gaza, þegar vatn safnaðist inn í tjald fjölskyldunnar í mikilli rigningu og roki. Læknar sögðu við Reuters að barnið hefði dáið úr kulda eftir að vatn flæddi í tjald þeirra.
Móðir hennar, Hejar Abu Jazar, lýsti atvikinu: „Þegar við vöknuðum sáum við að rigningin var yfir henni og vindurinn á hana, og barnið dó skyndilega úr kulda,“ sagði hún. „Það var ekkert að henni. Ó, eldurinn í hjarta mínu, eldurinn í hjarta mínu, elsku líf mitt,“ sagði hún grátandi.
Samkvæmt borgaravörnum á Gaza flæddu flest tjaldsvæði um allt svæðið vegna stormsins og bárust björgunarteymum yfir 2.500 hjálparköll frá Palestínumönnum sem festust í vatni, drullu og kulda.
Stormurinn magnast – fólk flýr tjaldsvæði
Veðurfræðingar segja að stormurinn, Byron að nafni, sé orðinn enn snarpari. Vindhraði er nú 40–50 km/klst en gæti náð allt að 80 km/klst þegar verst lætur.
Þúsundir fjölskyldna sem hafa misst heimili sín hafa sett upp tjöld nærri hafnarsvæðinu í Gaza-borg. Mörg þeirra eru aðeins haldin uppi af slitnum reipum, plastplötum og veikbyggðum staurum og þola illa venjulegt veður, hvað þá aftakaveður.
Að sögn fréttamanna yfirgáfu margir tjaldsvæðið á síðustu mínútum í þeirri von að finna skjól í einhverjum byggingum í borginni, að minnsta kosti yfir nóttina.
„Önnur vídd þjáninga“
Forstjóri UNRWA, Philippe Lazzarini, sagði á samfélagsmiðlum að „Stormurinn Byron haldi Gaza í heljargreipum“. Hann varaði við því að flóð, skemmdir og aukin heilsufarsáhætta bættu „annarri vídd þjáninga“ ofan á þegar gífurlegan vanda hundruð þúsunda Palestínumanna í bráðabirgðaskýlum.
UNRWA hefur í marga mánuði hvatt Ísrael til að hleypa óhindraðri mannúðaraðstoð inn á Gaza, þar á meðal tjöldum, teppum og öðrum neyðarvörum sem nauðsynlegar eru eftir að meirihluti svæðisins var lagður í rúst í hernaðaraðgerðum Ísraels.
Mannréttindasamtök harðorð í garð Ísraels
Ísraelsku mannréttindasamtökin B’Tselem fordæma áframhaldandi hindranir á hjálpargögnum inn á Gaza, sem þeir segja að hafi skilið „illa stadda Palestínumenn berskjaldaða fyrir versta vetrarveðri og storminum Byron“ eftir „tveggja ára þolraun með þjóðarmorði“.
Samtökin segja að þrátt fyrir „tveggja mánaða vopnahlé á pappírnum“ sé Ísrael enn að hindra aðstoð. Yfir 6.500 hjálparbílar bíði inngöngu á meðan börn gangi berfætt og fái aðeins sumarföt í ísköldu veðri. „Leiðtogar heimsins horfa hljóðir á og yfirgefa íbúana,“ segir í yfirlýsingunni.
Hægrisinnuð sjónvarpsstöð í Ísrael hæðist að hörmungunum
Þáttastjórnandi á ísraelsku hægrimiðlinum Channel 14 gerði opinberlega gert að veðrinu sem nú skellur á Gaza. Í þættinum óskuðu þátttakendur þess að flóð myndu „drekkja“ svæðinu og sýndu fullkomið skeytingarleysi gagnvart því hvort Palestínumenn næðu að lifa af veðrið. Hér má sjá myndskeiðið.

Komment