
Áhrifavaldur sem gekkst undir 27 aðgerðir til að líta út eins og Barbie-dúkka er látin, 31 árs að aldri.
Barbara Jankavski fannst látin í raðhúsi í São Paulo í Brasilíu og segir lögreglan dauða hennar vera til rannsóknar. Hann hefur verið skráður sem „grunsamlegur“ og beðið er eftir niðurstöðu krufningar.
Viðbragðsaðilar voru kallaðir að húsinu um helgina þar sem þeir fundu Jankavski, en þeim tókst ekki að endurlífga hana. Dauði hennar kemur aðeins örfáum dögum eftir að annar brasilískur áhrifavaldur, Fernanda Oliveira da Silva, fannst látin í Lago Verde.
Vinur Jankavski var sagður hafa verið í húsinu sama dag en yfirgefið það áður en hún lést. Sá vinur sagði lögreglu að Jankavski hefði slasast á auga fyrr um daginn. Fyrir nokkrum vikum hafði hún birt sjálfu þar sem hún sýndi glóðaraugu eftir aðgerð, sem kom á óvart hjá fylgjendum hennar.
Glóðaraugun voru hluti af bataferlinu eftir andlitslyftingu sem hún hafði gengist undir. Í texta með myndbandi þar sem marblettirnir sáust skrifaði hún: „Þriðji dagur eftir andlitslyftingu hjá @dr.aurilioluis @asanasal_dedivas – gengur allt of hratt! Nánast ósýnilegt ör!“ Hún bætti við að áverkar hennar litu verr út en þeir væru í raun.
Áhrifavaldurinn hafði varið um 42 þúsund pundum (um 7 milljónum íslenskra króna) í aðgerðir til að líkjast raunverulegri Barbie-dúkku. Hún varð fræg á samfélagsmiðlum eftir að hún hóf að deila ferli sínu í fegrunaraðgerðunum.
Jankavski hafði yfir 55 þúsund fylgjendur á Instagram og rúmlega 344 þúsund á TikTok, þar sem hún kallaði sig Boneca Desumana, sem þýðir „Ómannlega Barbie“. Hún kom einnig fram í fjölmörgum sjónvarpsþáttum og auglýsingaherferðum í Brasilíu.
Þrátt fyrir mikla fjölmiðlaumfjöllun hafði hún ekki birt neitt á aðalreikningi sínum á Instagram síðan 1. október, þegar hún deildi myndbandi af því þegar hún hitti annan áhrifavald, Avos Da Razao. Síðasta færslan hennar á TikTok var 7. september, myndband þar sem hún ræddi útgjöld sín.
Fylgjendur hennar voru harmi slegnir vegna andlátsins. Einn skrifaði: „Ég get ekki trúað þessu. Ég elskaði þig svo mikið. Hvíldu í friði.“ Annar bætti við: „Ég vona að Guð taki á móti þér með opnum örmum. Það er ótrúlegt að þú sért farin. Þú lifðir að minnsta kosti hluta af lífinu sem þú elskaðir, og það huggar okkur aðeins.“
Andlát Jankavski kemur skömmu eftir að annar áhrifavaldur, Fernanda Oliveira da Silva, betur þekkt sem Fernanda Maroca, fannst látin á heimili sínu í Lago Verde þann 30. október. Hún var 30 ára að aldri. Viðbragðsaðilar voru kallaðir á vettvang en gátu ekki bjargað henni.

Komment