
Leikkonan Amanda Seyfried stendur fast á fyrri ummælum sínum um að Charlie Kirk hafi verið „hatursfullur“, en þau ummæli lét hún falla eftir morðið á honum og fékk mikið bakslag fyrir.
Í viðtali við Who What Wear, sem birt var á miðvikudag, segir leikkonan, sem nú leikur í Housemaid, að hún ætlar ekki að biðjast afsökunar. Hún sagði: „Ég er ekki að fara að biðjast afsökunar á þessu. Fyrir fokkings sakir, ég setti inn eina athugasemd.“
Hún bætti við: „Ég sagði eitthvað sem byggðist á raunveruleikanum, raunverulegum myndbrotum og raunverulegum tilvitnunum. Það sem ég sagði voru staðreyndir, og ég hef augljóslega rétt á að hafa skoðun.“
Þegar athugasemd hennar á Instagram fékk aukna athygli birti hún sérstaka færslu þar sem hún útskýrði afstöðu sína. Þar sagði hún meðal annars: „Ég get verið reið út í kvenfyrirlitningu og kynþáttahatursorðræðu OG verið algjörlega sammála um að morðið á Charlie Kirk hafi verið ógeðfellt og skelfilegt á allan hugsanlegan hátt.“
Í viðtalinu við Who What Wear segir Amanda að hún sé þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að útskýra afstöðu sína betur. „Þetta snerist um að fá röddina mína aftur, því mér fannst hún hafa verið stolin og sett í annað samhengi, sem fólk gerir auðvitað,“ sagði hún.
Charlie Kirk var skotinn til bana 10. september þegar hann hélt ræðu á viðburði Turning Point USA í Utah Valley-háskólanum. Sá sem er grunaður um morðið, Tyler Robinson, situr í gæsluvarðhaldi og bíður réttarhalda.
Hann á að koma fyrir dóm í Utah County á fimmtudag þegar staða málsins verður tekin fyrir.

Komment