
„Þegar sturlun heimsmála ómar stöðugt í hausnum sýður upp úr þegar forsætisráðherra telur að Samfylkingin og Miðflokkurinn geti náð saman í útlendingamálum. Bless bless Samfylking.“ Þannig hefst Facebook-færsla Auðar Jónsdóttur rithöfundar og blaðakonu. Við færsluna hlekkjar hún færslu hagfræðingsins Gauta B. Eggertssonar, þar sem hann furðar sig á orðum Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra sem hún lét falla í viðtali á Heimildinni. Þar segir Kristrún Samfylkinguna geta náð saman við Miðflokkinn í útlendingamálum.
Auður heldur áfram:
„Þessi sýn er um það bil það síðasta sem maður þurfti í janúarkuldanum – þó að væntingar hafi svosem ekki verið miklar eftir orðræðu ráðamanna bæði í svokölluðum útlendingamálum og alþjóðamálum upp á síðkastið.“
Að lokum segir Auður þróunina hér á landi minna á Danmörku:
„Þróunin hér er farin að minna á Danmörku þar sem Dansk Folkeparti blés stöðugt í hatursorðræðu gegn útlendingum og þá sérstaklega aðfluttum múslimum á þann hátt að viðbrögðin við því voru oft sterk, en svo dofnuðu þau með árunum og sá flokkur varð, að því virtist, einhvers konar böffer fyrir hina flokkana þar til maður heyrði í fréttum að útlendingamál væru ekki einu sinni kosningamál lengur þar í landi. Dansk Folkeparti hafði lagt línuna. Rétt eins og Miðflokkurinn virðist vera að gera hér.“

Komment