
Það munu margir horfa til himins í kvöld ef marka má orð Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings á samfélagsmiðlum.
„Geimveðurstofnunin í Boulder í Colorado (SWPC) segir sólina hafa sent frá sér nokkuð stóra kórónuskvettu í gærkvöldi. Hún var sú fjórða og jafnfram stærsta frá því á mánudag,“ skrifar Einar og telur því að búast megi við litskrúðugum norðurljósum á himni í kvöld og annað kvöld.
„Þá er það bara spurning um skýjafarið. Í stað hefðbundinnar skýjahulaspár með bláum, með rauðum og grænum litatónum, sýni ég hér skýjaspá ECMWF á miðnætti í kvöld. Vestantil á landinu virðist ætla að verða nokkuð bjart (athugið að snævi þakið yfirborð getur runnið saman við ský á myndinni!). Kemur einkum til með að snúast um þunna háskýjabreiðu hér yfir, sem gæti sums staðar takmarkað sýn til himins,“ heldur hann áfram.
„Tungl var í fyllingu í gær og verður hátt á suðurhimninum á miðnætti í kvöld,“ skrifar hann að lokum.

Komment