
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 45 daga skilorðsbundið fangelsi og svipt hann ökurétti í fimm ár fyrir akstur undir áhrifum áfengis og brot gegn barnaverndarlögum.
Samkvæmt dómnum ók Mahmoud bifreið um Laugaveg við Nóatún í Reykjavík miðvikudaginn 8. janúar 2025 undir áhrifum áfengis. Í blóðsýni hans mældist vínandamagn 2,44 prómill.
Í ákæru kom jafnframt fram að barn hans hafi verið farþegi í bifreiðinni þegar lögregla stöðvaði aksturinn. Með háttsemi sinni hafi ákærði sýnt af sér „vanvirðandi háttsemi“ gagnvart barninu og „misboðið honum þannig að lífi hans eða heilsu var hætta búin,“ að því er segir í dóminum.
Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi, sem dómurinn mat honum til málsbóta. Í dóminum kemur fram að hann hafi áður þrisvar gengist undir lögreglustjórasátt vegna umferðar- og útlendingalagabrota, og þetta sé í annað sinn sem hann sé staðinn að akstri undir áhrifum áfengis.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari segir í niðurstöðu sinni að refsingin þyki hæfilega ákveðin fangelsi í 45 daga, en fullnustu hennar sé frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð.
Auk fangelsisrefsingarinnar var hann sviptur ökurétti í fimm ár frá uppkvaðningu dóms og dæmdur til að greiða 66.880 krónur í sakarkostnað.
Málið var flutt af Önnu Guðbjörgu Hólm Bjarnadóttur, saksóknarfulltrúa hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
Komment