
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi sem sat á lista Pírata í síðustu borgarstjórnarkosningum, hefur gengið til liðs við Samfylkinguna og hyggst taka þátt í prófkjöri flokksins í Reykjavík í janúar. Þetta kemur fram í frétt Heimildarinnar.
Hún greindi frá ákvörðun sinni á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrr í dag, þar sem Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar stóð henni við hlið. Fundurinn var boðaður með skömmum fyrirvara en borgarstjórnarfundur er á dagskrá síðar í dag.
Dóra Björt hefur starfað í meirihluta borgarstjórnar undanfarna mánuði ásamt Samfylkingunni, Vinstri grænum, Flokki fólksins og Sósíalistum, eftir að meirihluti Framsóknarflokksins undir forystu Einars Þorsteinssonar liðaðist í sundur fyrr á árinu.
Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík fer fram 24. janúar og rennur framboðsfrestur út á hádegi 3. janúar.

Komment