
Brynhildur S. Björnsdóttir er framkvæmdastjóri þjónustu og samskipta, stjórnarformaður og meðeigandi GG Verks sem er eitt af stærstu byggingafyrirtækjum á Íslandi. Áður gegndi hún þar starfi framkvæmda- og fjármálastjóra. Brynhildur er menntuð í stjórnun og talar meðal annars um sig sem stjórnanda og hvað einkennir góðan stjórnanda. „Mig langar ekki til að reka byggingafyrirtæki sem er alveg eins og eitthvað annað,“ segir Brynhildur. Þá segir hún: „Það er ótrúlega gaman að fá að setja fingrafar sitt á fyrirtæki í þessum bransa sem er almennt séð mjög karllægt.“
Það er heimilislegt í skrifstofuhúsnæði GG Verks. Veggir eru málaðir í fallegum litum, ýmis kvót eru á veggjum, mjúkir sófar í ljósum litum eru í miðju rýminu og kveikt er á ilmkertum.
Brynhildur S. Björnsdóttir, sem rekur fyrirtækið ásamt eiginmanni sínum, Helga Gunnarssyni, situr á skrifstofu sinni. Hún kemur fram, heilsar hlýlega og býður til sætis í fundarherberginu. Þar eru veggir málaðir vínrauðir en annars er glerveggur á þeirri hlið sem snýr út í aðalrýmið. Hún kemur svo inn með stóran Nóa Síríus-konfektkassa og tvö vatnsglös. Og við byrjum að ræða um upphafið. Æskuna.
Dóttir læknis og píanóleikara
„Ég held ég hafi verið í sjö grunnskólum og mest í Reykjavík. Ég átti unga foreldra þannig að það var mikið flutt,“ segir hún en móðir hennar var 19 ára þegar hún fæddist og faðir hennar tvítugur. Þau giftu sig ári áður en hún fæddist en skildu ári síðar.
Móðir Brynhildar er Steinunn Birna Ragnarsdóttir, píanóleikari og fyrrum Óperustjóri, og faðir hennar er Björn Logi Björnsson læknir. Þegar Brynhildur var fimm ára flutti móðir hennar ein til Boston til að fara þar í framhaldsnám í píanóleik og bjó Brynhildur hjá móðurömmu sinni og -afa þar til hún var 12 ára en þá flutti móðir hennar heim til Íslands. „Ég var eina barnabarnið og var eins og blóm í eggi.“ Hún sá móður sína í sumarfríum og jólafríum og svo vann amma hennar hjá Loftleiðum og var þess vegna með frímiða og heimsótti hún móður sína reglulega til Bandaríkjanna.
Faðir hennar flutti líka til Bandaríkjanna í sérnám og eignaðist fljótlega konu og börn eftir að leiðir hans og Steinunnar skildu. Brynhildur, sem er einkabarn móður sinnar, segist eiga yndisleg hálfsystkini. „Þetta er svona blönduð fjölskylda alveg par excellence.“
Brynhildur segir að tónlistin sé stór hluti í lífi sínu og litla stúlkan hlustaði oft á móður sína spila svo sem þegar hún var að undirbúa sig fyrir einleikaraprófið áður en hún flutti svo vestur um haf. „Mitt systkini var svolítið flygillinn. Það var keppinautur minn um tíma mömmu. Það var annaðhvort ég eða flygillinn. Maður var náttúrlega alinn upp við tónlist frá upphafi og mitt helsta áhugamál frá því ég man eftir mér var að spila plötur. Ég átti mínar plötur og þegar mamma var ekki að spila mátti ég hlusta á þær. Sumar voru barnaplötur en svo voru það líka plötur með tónlist eftir Tjajkovskij.“
Dóttir píanóleikarans lærði á píanó í nokkur ár en svo fór hún að læra á selló á unglingsárunum. „Mamma segir að ég hafi sagt að ég ætlaði bara að læra þangað til ég yrði örugglega ekki atvinnutónlistarmaður af því að ég ætlaði ekki að fara inn í þann heim. Það var ekki mitt. Ég vildi bara gera mitt eigið. Ég byrjaði seint að læra selló, eða upp úr fermingu, og hætti þegar ég var 18 ára. Ég hlusta hins vegar ótrúlega mikið á tónlist og úr öllum áttum. Mamma var auðvitað mikið í klassíkinni en pabbi kom inn með djass, popp og rokk.“
Brynhildur segist hafa verið að hlusta á tónlist á skrifstofunni. „Ég var að fá samantektina hvað ég hlustaði mikið á Spotify síðasta ári. Það voru 122.000 mínútur sem er einn þriðji af árinu. Ég hlusta eiginlega stanslaust frá því ég vakna á morgnana og þar til ég fer að sofa. Þetta er ólík tónlist. Ef ég er stressuð þá nota ég tónlist til að róa mig niður og þá hlusta ég á klassík eða djass. Svo þegar ég þarf að pikka mig í gang þá hlusta ég eiginlega á allt nema þungarokk og teknó.“
Tónlistin gefur Brynhildi mikið og hún segist einmitt nota hana mikið til að stýra andlegu hliðinni. Hún segir að þetta sé í rauninni svipað og hugleiðsla til að róa andardráttinn eða til að róa aðstæður eða skapa stemmningu annaðhvort fyrir sig eða aðra. „Ég hef sagt við manninn minn að ég held að það væri ekki til verri pyntingaraðferð fyrir mig heldur en að taka af mér tónlistina. Hún er stór partur af mér.“
Móðir 19 ára
Brynhildur segist hafa verið skrýtið barn. Hún hafi snemma orðið ábyrgðarfull, kannski af því að foreldrar hennar voru ekki á staðnum. „Það var vel hugsað um mig hjá ömmu og afa en ég þurfti kannski að taka ábyrgð á mér svolítið snemma. Það eina sem ég man eftir að hafa leikið mér með voru dúkkur og mig langaði að verða mamma frá því ég man eftir mér. Ég var alltaf með einhverja dúkku með mér alveg þangað til ég varð ellefu ára. Þetta var eitthvað umhyggju- eða mæðragen. Svo náttúrlega endaði það þannig að ég eignaðist mitt fyrsta barn nítján ára, alveg eins og mamma. Ég hætti að spila á sellóið þegar ég var ófrísk.“
Brynhildur sá fyrir sér eftir grunnskólanám að vinna með börnum eða fötluðu fólki og fór á uppeldisbraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Þegar námsefnið sem tengdist uppeldisfræðinni var búið langaði hana að færa sig í smærri skóla og úr varð að hún kláraði menntaskólaárin í Kvennaskólanum. Það var svo á þriðja ári í Kvennaskólanum sem frumburðurinn fæddist, drengur.
„Það var ótrúlega heimilislegt. Ég mátti koma með hann með mér í skólann og láta hann sofa fyrir utan gluggann á kennslustofunni þannig að ég gat fylgst með þegar hann vaknaði. Starfsmenn skólans voru ótrúlega góðir við mig og gáfu mér frjálsa mætingu síðasta árið. Við mamma bjuggum þá í Þingholtunum og þó að sonur minn eigi mjög góðan pabba þá var þetta svolítið sameiginlegt verkefni okkar mömmu. Pabbi hans hefur verið í lífi hans frá byrjun og stjúpmamma hans örfáum mánuðum síðar. Þau eru enn í dag miklir vinir okkar hjónanna og uppáhaldsferðafélagar. En þarna var ég nítján ára og mamma mín þrjátíu og átta ára. Og hún orðin amma.“
Brynhildur kímir. „Ég er fjörutíu og átta ára núna. Tíu árum eldri en hún var þegar hún var orðin amma. Hún er rosalega spræk amma og hún og sonur minn, sem er tuttugu og átta ára, eru bestu vinir. Þau ferðast saman, en þau eru bæði einhleyp, og hafa til dæmis farið saman til Japans þrisvar sinnum.“
Þroskaðist hratt
Hún bendir á að hún hafi verið mjög ung þegar hún fór að taka ábyrgð og að hún hafi þroskast hratt. „Ég fann mig í því að ég gæti mögulega tekið ábyrgð, leitt hluti áfram og hjálpað öðrum að blómstra. Það endaði þannig.“
Eftir stúdentsprófið starfaði Brynhildur sem aðstoðarfræðslustjóri Vinnuskólans. Hún giftist svo ung æskuvini sínum og flutti með honum til Noregs þar sem hann fór í nám og á meðan eignuðust þau tvö börn með eins árs millibili, son og dóttur. Leiðir þeirra skildu síðan. Í Noregi vann hún í leikskóla.
Líf fólks getur verið alls konar og þegar Brynhildur er spurð um lífsreynslu sem hafi mótað hana segist hún hafa verið ótrúlega lánsöm en nefnir þó eitt.
„Ég gekk mjög langt í að vera dugleg og gera allt það rétta“
„Ef maður fer í af hverju maður er eins og maður eða af hverju ég fór í stjórnun byggist örugglega á því að mamma og pabbi voru ekki bæði hjá mér frá því ég var fimm ára. Ég var hjá ömmu og afa. Mamma fór í námið og pabbi var með aðra fjölskyldu og bjó líka víðs vegar um landið og svo vestanhafs um tíma. Þannig að þó það hafi verið ótrúlega vel um mig séð og mamma hafi aldrei verið langt undan þá mótaði þetta mig auðvitað og ég þurfti svolítið snemma að treysta á sjálfa mig. Þetta voru sárar tilfinningar og það var erfitt að skilja þetta,“ segir Brynhildur sem segist í dag skilja móður sína sem var efnilegur píanóleikari og lét drauma sína rætast og var þar með fyrirmynd sín.
„Kannski það neikvæða við þetta var að ég passaði svo mikið upp á að vera dugleg og fékk mjög mikið frá umhverfinu að ég væri dugleg. Og þá varð ég alltaf duglegri og duglegri. Ég gekk mjög langt í að vera dugleg og gera allt það rétta, ekki bara reyna. Ég lagði áherslu á að vekja ekki neikvæða athygli á mér, velja réttu leiðirnar og hafa alla góða. Það fylgdi mér mjög lengi.“
Lærði hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði
Tuttugu og átta ára og einstæð móðir með þrjú börn hóf Brynhildur BA-nám í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. Hana langaði að fara í lögfræði en hugsaði með sér að hún væri orðin of gömul þar sem námið er svo langt. „Mér fannst ég vera orðin svo fullorðin og ég var komin með svo mörg börn. Það var algert rugl að hugsa svona þegar maður horfir á það núna.
Ástæðan fyrir því að ég fór í HHS-námið var að ég vissi ekki hvað ég ætlaði að verða en í náminu fékk ég einhvern veginn grunn í mörgu og eiginlega skilning á efnahagslífinu en samt líka hvaðan hugmyndirnar komu. Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Námið kveikti mikinn námsþorsta í mér sem fylgir mér enn þann dag í dag,“ segir Brynhildur.
„Þetta var þegar Bifröst var staðarskóli og það var svakalegt fjör og gaman að vera á kampus. Þetta var æðislegt og yndislegur tími en það var auðvitað álag.“
Brynhildur fór síðustu önnina sína sem skiptinemi til Singapore þar sem hún lagði stund á nám í asískum stjórnmálum og efnahagslífi. Börnin dvöldu hjá feðrum sínum á meðan.
Og árið 2007 útskrifaðis Brynhildur með BA-prófið. Hún var þá orðin ófrísk en hún kynntist eiginmanni sínum, Helga, ári áður.
„Ég sótti um starf sem aðstoðarmaður þingsmanns sem ég fékk en svo sagði ég þeim að ég væri nýbúin að komast að því að ég væri ófrísk og fór þá um haustið í meistaranám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Yngsta dóttirin kom svo í heiminn árið 2008 í miðju meistaranámi.
Ég var í opinberri stjórnsýslu í einn vetur, þar sem mér fannst það vera framhald á því sem ég hafði verið að læra og ekki nógu mikil áskorun og ákvað ég að söðla algerlega um og skipta yfir í meistarnám í stefnumiðaðri stjórnun við viðskiptafræðideild háskólans.“ Hún kláraði það nám.
Útskrifaðist í byrjun hruns
Árið 2008 breyttist ýmislegt. Efnahagshrun var staðreynd og Geir H. Haarde bað Guð um að blessa Ísland.
„Þegar ég útskrifaðist úr stjórnendanáminu árið 2009 þá var það á sögulega vondum tíma til að útskrifast í viðskiptum og ég var í sjálfu sér kannski með litla starfsreynslu miðað við marga aðra á þessum tíma af því að ég var búin að vera í þessu brasi, barnabrasinu. Komin með fjögur börn þrítug. Þannig að ég útskrifaðist í byrjun kreppunnar, eða um vorið 2009, og það var alveg augljóst að það var ekkert margt að fara að gerast. Ég fékk reyndar strax starf í gegnum skólann en leiðbeinandinn minn benti á mig í úrvinnslu í Háskólanum í Reykjavík á stórri mannauðsrannsókn sem er gerð árlega. Ég vann eitthvað í því og svo fór ég að hugsa með mér hvað ég ætti að gera næst. Ég var ekkert mjög áhættusækin á þessum tíma en hugsaði með mér að þarna hefði maður engu að tapa af því að það væru hvort sem er allir að missa vinnuna sína, meira að segja fólk í opinbera geiranum var ekki öruggt.
Vinkona mín Svava, sem ég hafði kynnst í skiptináminu í Singapore, kom með hugmynd um að stofna fyrirtæki fyrir alla þessa frumkvöðla eða bókstaflega alla þá sem voru búnir að missa vinnuna sína en á tímabili höfðu til dæmis hönnuðir og arkitektar verið að vinna í bönkum. Það voru allir hjá bönkunum. Svo fóru bankarnir og þá var þetta flotta tækifæri fyrir fólk að gera það sem það langaði að gera. Og ótrúlegasta fólk stofnaði fyrirtæki og fór að gera skapandi hluti en vissi kannski ekkert um fjármálahliðina. Þannig að Svava, sem hafði starfað í endurskoðun og bókhaldi, kom með þá hugmynd að stofna viðskiptaþjónustu fyrir þessi örfyrirtæki í rauninni, þessa litlu frumkvöðla. Við fórum í Klak-viðskiptahraðalinn og unnum þar keppni um viðskiptaáætlun og stofnuðum árið 2010 fyrirtækið, Hagsýn, sem var fjármálaþjónusta fyrir frumkvöðla. Það óx ótrúlega hratt á fjórum árum.“
Bókhalds- og rekstrarþjónustan Hagsýn sérhæfði sig í lausnum fyrir frumkvöðla, sjálfstæða atvinnurekendur og smærri fyrirtæki.
Brynhildur nefnir fjögur ár vegna þess að árið 2014 bað eiginmaður hennar, Helgi, hana um að taka við framkvæmda- og fjármálastjórastöðu GG Verks, byggingafyrirtækinu sem hann og bróðir hans höfðu stofnað árið 2006. „Fyrirtækið hafði vaxið og þeir voru ekki með bakgrunn í stjórnun eða rekstri og mér fannst þetta var mjög spennandi. Úr varð að ég og Svava seldum fyrirtækið.“
Sitjandi varaþingmaður
Áður en fjallað verður áfram um GG Verk og störf Brynhildar þar er vert að geta þess að hún var á árunum 2013-2016 sitjandi varaþingmaður fyrir Bjarta framtíð.
„Það var svo leiðinlegt eftir hrunið. Það voru allir svo neikvæðir og það var alltaf verið að tala um Icesave og hrunið og ég var svo pirruð á þessu. Svo heyrði ég af flokki sem ætlaði að gera þetta öðruvísi og hét Björt framtíð og var í rauninni smá frumkvöðlastarfsemi og þar voru aðilar sem höfðu ekkert áður verið í pólitík. Mér fannst það vera spennandi. Ég rétti bara upp hönd og sagðist vera til í að vera á bak við tjöldin og hjálpa ef ég gæti með reksturinn. Ég var í þessum stóra stofnendahópi og fór strax í framkvæmdastjórn og var gjaldkeri flokksins frá byrjun. Ég ætlaði alls ekki að vera í framlínunni, ég var bara að reka mitt fyrirtæki en mig langaði mikið til að rödd lítilla fyrirtækja heyrðist. Það hefur alltaf verið talað um risafyrirtæki en raunin er þó sú að yfir 90% fyrirtækja flokkast undir lítil fyrirtæki.
Heiða Kristín hringdi í mig daginn áður en listarnir voru kynntir fyrir Alþingiskosningarnar 2013 og bað mig um að vera í þriðja sæti á Reykjavík suður-listanum en hún og Guðmundur Steingrímsson voru aðaldrifkraftarnir. Ég þurfti aðeins að hugsa þetta en ég hringdi í mömmu mína og systur mína og auðvitað manninn minn. Hann var svolítið nervös varðandi hvernig talað er um pólitíkusa en það var mjög týpískt hjá mömmu og systur minni sem sögðu að ég færi aldrei fyrir minna en þriðja sætið.“ Brynhildur hlær. „Ég var til í að vera í tuttugusta sæti eða vera alveg aftast. En ég sagði bara „já“.
Okkur gekk mjög vel í þessum kosningum, fyrstu kosningunum, og það fóru tveir þingmenn inn á mínum lista, Óttar Proppe og Róbert Marshall, þannig að ég var varaþingmaður þeirra beggja. Þannig að ég endaði svolítið mikið inni á þingi á því tímabili og svo var ég stjórnarformaður flokksins í eitt ár, 2015-2016. Þetta átti bara að vera svolítið þægilegt ár en þá komu Panama-skjölin og það var farið beint í kosningar. Þá þurfti ég að taka þátt í því að skipuleggja snarpa kosningabaráttu þar sem markmiðið var 8% og að vera í ríkisstjórn en við vorum í 1,5% og úr varð 7,2% og ríkisstjórn.“
Brynhildur segir það hafa verið dýrmæta reynslu að vera sitjandi varaþingmaður. „Ég er mjög fegin eftir á að hafa rétt upp hönd og tekið þátt af því að þetta er í rauninni ekkert annað en samfélagsþjónusta, að reyna að koma að einhverju og breyta. Þetta var mjög áhugaverð reynsla og mjög skemmtileg og ég hefði ekki viljað sleppa þessu. En það var líka ákvörðun að endast ekki. Ég tók ákvörðun þegar ég var stjórnarformaður og var að vinna að því að koma flokknum í ríkisstjórn að um leið og var búið að kjósa og þau voru komin inn þá hætti ég. Og það var hárrétt fyrir mig af því að ég þurfti þarna eiginlega að velja hvort ég vildi vera í viðskiptum eða í stjórnmálum. Og ég vildi í grunninn vera í viðskiptum eða sem sagt í atvinnulífinu. En auðvitað kitlaði þetta. Enda hrikalega gaman. Og ég þakklát meðeigendum mínum í GG að leyfa mér að gera bæði um tíma. Það þýddi auðvitað einhverja fjarveru en ég bætti það held ég upp með mikilli vinnu í GG þess utan. Þessi ár eru svolítið í móðu. Slíkt var álagið. Og maðurinn minn lærði til dæmis að elda á þessum tíma, enda var ég ekki lengur þessi húsmóðir sem ég hafði alltaf verið. En ég er náttúrulega fáránlega vel gift og ég held að við séum bæði helsta klappstýra hvors annars. Þarna þurfti ég á umburðarlyndi og skilning að halda sem hann og fjölskyldan öll sýndi mér.“
Brynhildur starfaði sem framkvæmda- og fjármálastjóri GG Verks á árunum 2014-2019 og var sitjandi varaþingmaður nokkrum sinnum á árunum 2013-2015 eins og áður kom fram. Þá var hún stjórnarformaður Sjúktratrygginga Íslands á árunum 2017-2021.
Hún elskar að læra og á árunum 2018-2023 stundaði hún nám í „Owner/President Management” við Harvard Business School sem er fyrir eigendur og æðstu stjórnendur eigin fyrirtækja. Um er að ræða þriggja ára nám með þremur staðarlotum. Nemendur voru í staðnámi í mánuð á hverju ári en annars var um fjarnám að ræða. Hún átti að útskrifast árið 2020 en vegna Covid-heimsfaraldursins breyttist það.
Stjórnmálin leikrit
Brynhildur nefnir mannlega þáttinn þegar hún er spurð hvað hún geti nýtt sér í dag þegar kemur að stjórnmálareynslunni.
„Viðskipti og stjórnmál snúast um manneskjur í rauninni og byggjast upp á manneskjum. En það er margt í viðskiptum sem mér finnst að stjórnmál gætu tekið til fyrirmyndar og það er samstarf og að vinna í sömu átt, alveg sama í hvaða liði er spilað. Það kom mér mikið á óvart að þetta snýst mikið um lið og egó en ekki sameiginleg markmið. Ef íslensk stjórnmál eru skoðuð þá held ég að við séum ekkert svo ólík. Það eru allir hérna sósíaldemókratar, markaðshyggjufólk, þannig lagað séð. Það er ekki kommúnismi hérna eða fasismi. Við viljum öll velferðarsamfélag, við viljum öll geta skarað fram úr og við viljum borga okkar skatta og fá eitthvað fyrir skattana okkar. En af því að flokkarnir heita ólíkum nöfnum þá vinnur fólk í þeim á móti hvert öðru og það kom mér neikvætt á óvart í stjórnmálum. Og það er bæði innan flokka og milli flokka og kannski verst innan flokka. Og það eru kannski vonbrigði með stjórnmálin. Það sem kom mér líka á óvart í stjórnmálum er að þetta er svolítið leikrit. Þetta er samt ekki svo slæmt og það vinna allir miklu betur saman á bak við tjöldin á Alþingi heldur en sést og svo er fólkið í sjónvarpinu og þá setja sig allir í stellingar og keppast um orðið.
Þetta var óskaplega skemmtilegur vinnustaður og það sem er kannski líka svipað er að það er rosalegur hamagangur. Engir tveir dagar eru eins. Ég gleymi aldrei þessum Panama-degi þegar ég var óvænt stödd uppi á þingi og þá var ég ekki sinu sinni á þingi. Ég var bara stjórnarformaður flokksins og var í bakherbergi þegar allir voru að leita að Sigmundi og hann var einhvers staðar á leiðinni til forseta og það var eftirför og flokkurinn hans labbaði um og vissi ekkert. Þetta var eins og bíómynd. Það var eins og spennusaga að vera þarna.“
Helgi hafði viðrað þær áhyggjur sínar í upphafi að Brynhildur gæti endað á milli tannanna á fólki ef hún færi í stjórnmál. Hún segist hafa sloppið mjög vel. „Það veit eiginlega enginn að ég var í stjórnmálum nema þeir sem voru annaðhvort í stjórnmálum á sama tíma eða einhverjir stjórnamálanördar. Það er leiðinlegt að sjá það að það er mikið af góðu fólki sem kemur úr stjórnmálum sem á erfitt uppdráttar í atvinnulífinu af því að það er búið að stimpla það. Það er mikil synd af því að upp til hópa er fólk í stjórnmálum af heilum hug. Þetta er fórn. Það er skotveiðileyfi á þetta fólk og það er eiginlega allt túlkað því í óhag af því að það er spennandi.“
„Þetta er svakaleg fórn“
Nettröll koma til tals. „Þetta er hræðilegt. Ég er mjög fegin að hafa gert þetta og ég ber mikla virðingu fyrir þeim sem eru tilbúnir til að gera þetta og ég segi oft við fólk sem hefur hæst og kvartar mest yfir því hvað allt sé ómögulegt á þingi að prófa þetta sjálft af því að þetta er ekki svo einfalt.“
Brynhildur segir að sér finnist vera of mikill hægagangur í kefinu; opinbera kerfinu. „Það er bara ofsalega erfitt að breyta. Og það eru kannski vonbrigðin. Þess vegna finnst mér vera auðveldara að vera með eigið fyrirtæki þar sem sveigjanleikinn er þannig að ef við ákveðum að gera eitthvað þá gerum við það. Það þarf ekki að fara í gegnum neinn. Það þarf ekki að fara í gegnum einhverjar nefndir, embættismenn og ráð. Til að byggja hús þarf auðvitað að fara í gegnum mikinn prósess hjá hinu opinbera en viðskiptalífið er almennt kvikara umhverfi. En að því sögðu er ótrúlegur hægagangur í öllu opinbera kerfinu hvað varðar yfirferð og samþykktir teikninga og skipulags sem veldur oftar en ekki miklum seinkunum á framkvæmdartíma og gerir framkvæmdirnar því mun dýrari sem skilar sér svo út í verðlag mannvirkja. Ábyrgð hins opinbera er því mikil þar. Hver mánuður sem líður tikkar á ótrúlega háum vöxtum og kostnaði. Það er oft talað um verktakana í þessu samhengi en lítið talað um þátt hins opinbera. Við getum gert svo miklu betur þarna saman.“
Reka GG Verk saman
Eins og þegar hefur komið fram stofnaði eiginmaður Brynhildar, Helgi, GG Verk árið 2006 ásamt bróður sínum, Gunnari, sem er smiður en þau Brynhildur eru einu eigendur GG Verks í dag. Faðir þeirra bræðra og annar afi voru smiðir og segir Brynhildur að þeir bræður hafi farið að vinna hjá föður sínum frá því þeir voru strákar þannig að það hafi eiginlega aldrei neitt annað komið til greina en að vinna í þessu fagi.
„Þeir voru lengi vel undirverktakar í uppsteypu og þegar ég varð framkvæmda- og fjármálastjóri árið 2014 þá var stærsta ákvörðunin tekin fyrstu vikuna að þeir myndu hætta að vera sjálfir á hamrinum. Þeir voru þá sjálfir að smíða. Ég sá strax að fyrirtækið gæti ekki stækkað ef þeir væru sjálfir fastir í að smíða.“
Starfsmenn voru þá um tuttugu og veltan um 600 milljónir króna að sögn Brynhildar. Starfsmenn í dag eru um hundrað fyrir utan álíka fjölda undirverktaka og í ár verður veltan tæplega átta milljarðar en hún hefur þrettánfaldast síðan Brynhildur kom inn í fyrirtækið 2014 og fyrirtækið komið í hóp 10 stærstu byggingaverktaka á Íslandi.
„Þegar ég fór að vinna hjá fyrirtækinu voru þeir að breytast úr því að vera undirsteypuundirverktakar þar sem þeir sáu um að steypa hús fyrir aðra aðalverktaka en þeir voru þó nýbúnir að vinna fyrsta verkefnið sitt sem aðalverktakar fyrir Búseta en það var unnið á árunum 2013-2014. Og það var stórt skref.
Breytti ferlum og markaði vörumerki
Þegar ég hóf störf hjá fyrirtækinu gaf ég mig ekki út fyrir að vita neitt um byggingar eða hvernig á að byggja en þeir kunna það. Ég kom inn með skipulagið, markaðsmálin, ferlahugsunina, gæðakerfið og vandaða mannauðsstjórnun. Við tókum þá ákvörðun í nóvember 2014 að fá alþjóðlega ISO-9001 gæðavottun en á þeim tíma var bara einn verktaki á landinu sem var með það og við vorum komin með það átta mánuðum síðar. Ég veit að það getur tekið nokkur ár þannig að við keyrðum hratt og örugglega á þetta. Þetta var kannski í fyrsta sinn sem það var einhver ferlahugsun hjá fyrirtækinu og almennileg tölvuvæðing og kannski líka þetta kvenlega. Það er svo margt búið að gerast í þessum bransa á tíu árum. Ef maður fór inn á byggingasvæði á þessum tíma þá sá maður ekki marga með hjálma. Það var hins vegar mikil kúrekastemmning. Og þegar ég bað um einhver gögn þá var bara pappír á verkstöðunum. Og við vorum ekki með heimasíðu hvað þá sýnileg á samfélagsmiðlum. Það hefur bara mikið breyst í bransanum og almennt til góðs. Þannig að ég kom kannski inn með það. Ég byrjaði að gera heimasíðu og brandið og svo ferla, frammistöðumat og starfsmannasamtöl, eitthvað sem enginn sem vann hérna hafði farið í í þessum bransa á þeim tíma. Það var þetta stjórnunarlega og faglega sem við þekkjum úr öllum öðrum brönsum.“
Brynhildur segist vera góð í því þegar kemur að skipulagi, ferlum, stefnumörkun og sýn og hvernig eigi að framkvæma þetta allt. „En við náttúrlega búum til hús og byggingar og ég geri ekkert af því. Ég er hins vegar mjög góð í að passa að það séu ferlar á bak við hvernig við undirbúum það, hvernig við áætlum það, hvernig við nálgumst viðskiptavini okkar, hvernig við fylgjum hlutunum eftir og hvernig við ráðum og rekum. Ég held að þetta vinni allt mikið saman. Við hefðum sennilega aldrei getað náð þessari stærð öðruvísi en að vera með eitthvað skipulag og eitthvað kerfi, gæðakerfi, og ég átta mig á því. En fyrst og fremst erum við náttúrlega með frábært fólk og það eru allir svo viljugir og gefast ekki upp á að vera til í einhverjar breytingar af því að við breytumst mjög mikið hérna og innleiðum hratt hluti og núna er mikil áhersla á að nýta gervigreind sem mest hjá okkur,“ segir hún.
Selja beint til íbúðakaupenda
„Það er orðinn mjög stór hluti og það eru allir bara til í allt. Við kynntum nýlega nýjan Vegvísi sem er leiðarvísirinn okkar frá undirbúningi verkefna til afhendingar. Það eru allir svo vanir því að við séum að reyna á okkur eða bara að verða betri. Það er alveg á hreinu að þetta byggist allt á því að við erum með frábært fólk sem er alltaf til í að reyna að skara fram úr í öllu sem við gerum. Bæði starfsfólk og undirverktaka sem við eigum orðið áralöng sambönd með.“
Árið 2016 fór GG Verk að vinna að sínum eigin verkefnum þar sem fyrirtækið byggir og selur svo beint til íbúðakaupenda. „Það var mjög stór draumur hjá þeim bræðrum. Í dag eru 50% verkefna þannig að við þróum verkefni, byggjum og seljum beint til kaupenda eða íbúðaeigenda og svo 50% útboðsverk þar sem við erum aðalverktakar fyrir til dæmis fjárfesta eða opinbera aðila.“
Brynhildur segir að GG Verk taki bara að sér stór verkefni og að fyrirtækið taki almennt ekki að sér verkefni undir einum og hálfum milljarði króna. „Flest okkar verkefni eru fjölbýlishús með fimmtíu íbúðum eða meira eða stærri mannvirki á borð við íþróttahallir og ýmis stærri atvinnuhúsnæði. Við erum nýbúin að klára 150 íbúðir sem var eigið verkefni í Hamranesinu í Hafnarfiði og við erum svo núna að byggja um tvö hundruð íbúðir í Gufunesi fyrir aðra fjárfesta en erum þegar búin að byggja þar hundrað og fimmtíu íbúðir. Við erum að stækka viðbygginguna í Firðinum auk nýs hátæknibókasafns, íbúða og hótels sem er líka unnið fyrir aðra fjárfesta. Það er byrjað að steypa sökkla í Roðahvarfi þar sem við erum sjálf að fara að byggja níutíu íbúðir og þá erum við að byggja sólarhringsþjónustuíbúðir í Urðarhvarfinu sem er unnið fyrir fjárfesta en jafnframt mjög samfélagslega jákvætt verkefni. Síðan erum við að byggja sjö fjölbýlishús í Hnoðraholti í Garðabæ og er það eigið verkefni.“
Svakaleg áhætta
Það fylgir því áhætta að fjárfesta í svona stórum verkefnum og segir Brynhildur að þau geti aldrei verið viss um að þetta gangi upp. „Þetta er svakaleg áhætta og það er líka eitthvað sem ég þurfti að þróast út í af því að ég var frekar þeim megin í lífinu þegar ég var á þessum krossgötum, ung kona nýkomin úr námi og búin að vera að hugsa um öryggi og jafnvel að starfa hjá hinu opinbera. En það var kannski ákveðinn vendipunktur þarna hjá mér og vakning. Þetta var í hruninu, maðurinn minn var að reka byggingafyrirtæki og það var allt undir - heimilið og allt - og ég fattaði að það væri enginn öruggur. Það eiginlega varð til þess að ég þorði til dæmis að stofna mitt eigið fyrirtæki sem var alls ekki svona áhættusamt af því að það voru ekki fjárfestingar á bak við það; við þurftum bara tölvu, prentara og síma. En ég efast samt um að ég hefði gert það nema út af þeirri lífsreynslu sem það var að ganga í gegnum hrunið með allt undir hvort sem var. Allt í einu hafði maður engu að tapa og allt að vinna,“ segir hún.
Þau eru með allt undir í rekstrinum.
„Eitt sem ég hef lært af manninum mínum líka er að það er ekkert hægt að vera hálfur í þessu og það er allt undir. Og það gleymist kannski svolítið í umræðunni um fyrirtækjaeigendur og bara fyrirtækjarekstur almennt, sérstaklega þá sem eru ekki bakkaðir upp af einhverjum sjóðum eða fjárfestum. Við erum ekki með neina svo það sé tekið fram og í dag er ég og maðurinn minn, Helgi, eini eigendur og það er allt undir. Það er enginn sjóður á bak við okkur. Þetta verður bara að ganga upp.“
Þakkar Guði að vera með manninum sínum í rekstri
Oft hriktir í stöðum rekstursins vegna óvissu.
„Efnahagsumhverfið er eins og hjartalínurit. Ég er mjög skipulögð og áætlanaglöð að eðlisfari en hins vegar verður maður líka að vera með þetta „þetta reddast“ og að allt verði í lagi. Og hvað ef? Og hvað er það versta sem getur gerst?“ Brynhildur nefnir í þessu sambandi hugleiðslu, góða tónlist og gott hjónaband. „Ég þakka Guði fyrir að vera með manninum mínum í þessu af því að það er mjög erfitt að útskýra þetta fyrir öðrum þetta álag, áhyggjurnar, pressuna og óvissuna. Það breyttust til dæmis allar forsendur vegna Covid-heimsfaraldursins og svo Úkraínustríðsins. Öll virðiskeðjan riðlaðist. Það hækkuðu öll aðföng. Við vorum kannski búin að gera fastverðsamninga til þriggja ára við verkkaupa um að byggja einhverja blokk og hún kostaði ákveðið en til dæmis timbrið og stálið hækkuðu langt upp í rjáfur og vísitalan tók ekkert á því strax. Það leið langur tími þangað til það gerðist þannig að það var algjör forsendubrestur. Og þá er það bara krísustjórnun og það er bara 24/7 að finna út úr þessu, tala við sitt fólk, snúa bökum saman og ráða fram úr hlutunum.“
Opin og hreinskilin
Brynhildur er spurð hvernig það hafi haft áhrif á hana að vera karlinn í brúnni eða reyndar konan í brúnni.
„Í fyrsta lagi er mjög gaman að vera konan í brúnni í þessum bransa. Miðað við hvað ég er mikil „stelpustelpa“, mikil kona og „girl power“ alla leið þá finnst mér ótrúlega gaman að vinna mikið í kringum karlmenn. Mér finnst þeir vera skemmtilegir og það hefur líka verið æðislegt að hafa getað haft áhrif á það að fjölga konum. Gæða- og öryggisstjórinn er kona, fráfarandi fjármálastjóri er kona og mannauðssérfræðingurinn er kona. Af fjórum verkefnastjórum eru tvær konur. Þannig að það er mjög gaman að sjá konum fjölga í stjórnendastöðum í bransanum og við reynum alltaf að hafa augun opin fyrir því af því að mér finnst við vinna bara svo miklu betur saman heldur en í sundur.“
„Mig langar ekki til að reka byggingafyrirtæki sem er alveg eins og eitthvað annað“
Að jafna kynjahlutfall er leið að árangri, að mati Brynhildar.
„Jafnfrétti er ekki bara réttlætismál heldur hreint og klárt gæða- og rekstrarmál, enda sýna allar rannsóknir að fyrirtæki sem hafa gott jafnvægi í kynjahlutfalli stjórnenda vegnar mun betur en þar sem er einsleitni. Það er kannski það sem hefur litað mig, mig langar ekki til að reka byggingafyrirtæki sem er alveg eins og eitthvað annað. Mér finnst gaman að reyna að gera það eitthvað öðruvísi og ég held að það sé kannski þessi samruni kvenlægra og karllægra gilda og hæfni sem gerir það að verkum. Þannig að það er ótrúlega gaman að fá að setja fingrafar sitt á fyrirtæki í þessum bransa sem er almennt séð mjög karllægt. Við getum verið svo geggjuð saman.“
Þó að það séu hlutfallslega fleiri konur í stjórnendahlutverkum hjá GG Verki en gengur og gerist í bransanum er þó mikill meirihluti starfsmanna karlar og er Brynhildur síðan spurð hvernig hún vill að fólk upplifi sig sem stjórnanda.
„Ég vil kannski fyrst og fremst að fólk upplifi mig sem stjórnanda sem veit hvert hann er að fara og hvert fyrirtækið er að fara. Það er mikilvægt fyrir mig að fólk skilji gildi okkar, hvað skiptir okkur máli og hver við viljum verða þegar við verðum stór þannig að það sé skýrleiki í loftinu og að fólk fatti og finni það raunverulega að þó að við séum að búa til byggingar að þá er fólk aðalatriði og það er fólkið sem býr til byggingarnar, býr í þeim og starfar. Og ég vil að það viti, skilji og finni að það sé einhver með plan. Og þegar það er óróleiki sem er svo oft í efnahagsumhverfinu að maður haldi ró sinni og sé með plan og að allir viti hvert það er. Mér þætti mjög vænt um ef fólk skynjaði það eða því liði þannig.“
Þegar Brynhildur er spurð hvort hún telji að hún sé öðruvísi stjórnandi en karlkyns stjórnandi segist hún telja að hún sé kannski opnari. „Ég er hreinskilin. Ég held ég sé ekkert endilega lengur mjúk. Ég var það fyrst. Fyrst skipti mig miklu máli að öllum líkaði vel við mig og það var akkillesarhæll.“
Var það kannski út af óöryggi? „Já, það var eitthvað slíkt. Þetta var eitthvað sem ég þurfti að taka á þegar ég var í náminu úti af því að þar fór maður í gegnum mikil persónuleikapróf og það var verið að skoða mann frá öllum sjónarhornum sem stjórnanda. Þegar ég kom út í námið árið 2018 mældist ég allt of diplómatísk sem yfirstjórnandi og allt of fljót að breyta um skoðun ef aðrir komu með góð rök og stóð kannski ekki nógu fast á minni sýn. Mér var sagt að með þessu myndi ég missa virði mitt sem yfirstjórnandi af því að það er verið að fjárfesta í ákveðnu virði og virðið byggist upp á einhverri reynslu og þekkingu en ef maður vill fara sömu leið og meirihlutinn þá er ekkert virði í manni.
„Ég finn að ég er ekki eins mjúk og ég var áður.“
Það var tekið hart á þessu í náminu á öðru árinu í náminu sem er fyndið vegna þess að ég held að allir upplifi mig sem mjög ákveðna manneskju og halda jafnvel að ég sé grjóthörð og ósveigjanleg sem var og er enn svo langt frá sannleikanum. Það urðu kaflaskil samt þarna árið 2019 hjá mér varðandi þetta og ég finn að ég er ekki eins mjúk og ég var áður. Það tengist líka reynslunni. Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt en númer eitt er að vera sanngjarn og mannlegur en ef hlutirnir eru hins vegar ekki í lagi þá er ég ekki mjúk. Ég hækka ekki róminn en er þó mjög skýr og segi afdráttarlaust að þetta sé ekki ásættanlegt hvort sem það er birgi, starfsmaður eða viðskiptavinur.“

Einkenni góðs stjórnanda
Brynhildur S. Björnsdóttir hefur verið í stjórnendastörfum í áraraðir og er menntuð í fræðunum. Hún er auðvitað spurð hvað einkenni góðan stjórnanda.
„Stjórnandi þarf að elska fólk og vera fær í samskiptum, fær í að miðla. Einmitt það sem við vorum að tala um áðan - að fólk viti hvert fyrirtækið er að fara, hvað skiptir fyrirtækið máli og hvaða kröfur eru gerðar. Það er mjög mikilvægt að geta miðlað þessu. Stjórnandinn þarf líka að vera framsýnn. Og hann verður að vera taktískur. Og strategískur. Og hann verður að geta lesið umhverfi sitt og séð glufur á markaði og greint, verið góður greinandi. Verið góður í að greina ógnir og tækifæri og ná að miðla þessu og búa til einhvers konar leið þangað. Ég held að það eigi við alls staðar en hann verður að vera þrautseigur og í jafnvægi af því að það er stanslaust verið að kippa undan manni fótunum. Og það bara liggur í hlutarins eðli - ef þú ert með hundrað eða fleiri starfsmenn þá koma alls konar hlutir fyrir og stundum mjög erfiðir hlutir. Það er bara eðlilegur hluti af því að vera stjórnandi og bera ábyrgð. Það þarf til dæmis að geta verið sveigjanlegur og gera sér grein fyrir aðstæðum og geta spilað með þegar eitthvað kemur upp á hjá fólki.“
Hún ítrekar að miðlunin sé lykilatriðið. „Það er alveg sama hversu klár stjórnandinn er og hversu góður greinandi hann er og með sýn - ef hann nær ekki að miðla því þá fær hann ekki fólk með sér.“
Kalt að vera yfirstjórnandi og eigandi
Brynhildur hefur verið eins og fyrr segir framkvæmda- og fjármálastjóri GG Verks en er núna framkvæmdastjóri þjónustu og samskipta, stjórnarformaður og meðeigandi en segist samt ekki upplifa sig á toppnum í lífinu. Hún er samt spurð hvort það geti verið kalt á toppnum en hún var vissulega áður framkvæmdastjórinn og er náttúrlega annar eigandinn og stjórnarformaðurinn. „Það er alveg kalt að vera yfirstjórnandi og eigandi fyrirtækis. Ég orða það bara þannig. Maður fær mjög sjaldan hrós. Maður fær miklu frekar að vita hvað megi fara betur. Og það liggur bara í hlutarins eðli. Þannig að það er enginn sem gefur manni reglulega uppbyggjandi endurgjöf eins og þegar fólk er með yfirmann. Það er eitt. Þetta er svipað og í stjórnmálunum þar sem fólk fær eiginlega bara neikvæða endurgjöf. Reyndar fæ ég alveg jákvæða endurgjöf þar sem ég á yndislega samstarfsmenn en ég meina að almennt er það eins og ég nefndi. Sem betur fer á ég manninn minn að sem kollega og meðeiganda. Ég hugsa að það væri mjög einmanalegt að vera einn eigandi fyrirtækis eða í einhverri eigendagrúppu sem væri ekki tengd svona sterkum böndum. Þannig að það er æðislegt.“
Leiðinlegt að talað sé um „elítu“
Brynhildur talar um orðræðuna í samfélaginu þegar kemur að fyrirtækjaeigendum. Hún bendir á að stundum sé talað um „elítu“ sem henni finnst vera leiðinlegt. „Fólk sér kannski bara það góða. Fólk sér bara ferðalögin sem farið er í vegna þess að maður getur ekki tekið sér frí og verið á landinu af því að maður er alltaf að hérna heima. Þetta lítur kannski mjög glæsilega út en það veit enginn hvað maður er að glíma við á meðan, áhyggjurnar og efnahagsumhverfið eða hvað hefur verið að gerast til dæmis innanhúss í fyrirtækinu. Ég held að fólk gefi sér að það sé aðeins glæsilegra að vera fyrirtækjaeigandi meðalstórs fyrirtækis heldur en það raunverulega er. En það er ótrúlega gaman og gefandi. Annars myndi ég ekki vera það.“
Það er bæði álagið og áhættan. „Þessu fylgir mikil áhætta og maður leggur allt undir og leggur allt í þetta og það er ekkert sem heitir helgarfrí eða kvöldfrí. Maður er alltaf að. Það er hiklaust fundað á kvöldin og um helgar ef það eru krísur. Við erum líka að tala um byggingafyrirtæki og það getur allt gerst á verkstöðunum. Allt í einu fer kannski ein dæla að leka og þá þarf að rjúka til. Það er enginn sem kemur í staðinn fyrir fyrirtækjaeiganda. Það er enginn með allt undir nema hann. Eðlilega.“
Sitthvor hæfnin og færnin
Karlmaður kemur inn á skrifstofuna og sést í gegnum glerið sem skilur að fundarherbergið og alrýmið. Þetta er Helgi, eiginmaður Brynhildar og meðeigandi. Hún er spurð hvernig það sé að vinna með eiginmanninum og hvort þau tali mikið um vinnuna á heimilinu.
„Það þurfti alveg tíma til að slípa það en við vorum akkúrat að tala um það í hádeginu að við erum til dæmis glötuð í að vinna saman að sameiginlegum verkefnum þar sem við erum að gera það sama heima. Ekki hérna í vinnunni heldur heima. Ef við erum að gera upp baðherbergi þá rekumst við á af því að við erum mjög ólík. Hann hugsar hlutina vel en ég veð áfram. En í vinnunni gengur það ótrúlega vel af því að við erum með sitthvora hæfnina og færnina. Mér dettur ekki í hug að hafa skoðanir á því hvernig á að byggja hús og hann hefur ekki skoðun á því hvernig eigi að byggja upp ferla og strategíur. Við kunnum svo vel að meta hvað hitt kann að það gengur mjög vel. Svo erum við með sitthvora skrifstofuna og erum ekkert alltaf á sömu fundunum.
Varðandi hvort við tölum mikið um vinnuna utan vinnu, já. Við höfum aldrei sett upp reglu um að gera það ekki af því að það er allt undir. Þetta er svo mikið líf okkar. Og fjölskyldan er líka með okkur í þessu,“ segir Brynhildur en þrjú af fjórum börnum hafa unnið fyrir fyrirtækið að einhverju leyti.
Stórfjölskylda Helga á sumarbústað og þangað fara þau oft og stundum fer Brynhildur þangað ein til að vinna og einbeita sér að vinnunni.
Brynhildur og Helgi kynntust á unglingsárunum. Hún var fimmtán ára en hann nítján. Þau bjuggu bæði í Seljahverfi og heimsótti hún oft heimili hans þar sem hún þekkti bróður hans sem er tveimur árum eldri en hún. Hún viðurkennir að þau hafi strax orðið skotin í hvort öðru, hún og Helgi, en ekkert gerðist. Aldursmunurinn á þessum aldri er meiri en þegar um fullorðna er að ræða. Það var svo árið 2006 sem þau byrjuðu að vera saman og í dag búa þau ásamt tveimur yngstu dætrunum í einbýlishúsi í Seljahverfi, hverfinu þar sem þau kynntust.
„Þetta var allt saman skrifað í skýin árið 1992,“ segir hún.

Komment