
„Umræðan um bilunina á Grundartanga staðfestir það sem maður hefur haft ávæning af en kemur nú berlega í ljós - hversu hagsmunasamtök á Íslandi væla mikið.“ Þannig hefst Facebook-færsla fjölmiðlamannsins Egils Helgasonar.
Þar gagnrýnir hann samtök á borð við Samtök iðnaðarins og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og segir „vælið“ úr þeirri átt eins og „ósjálfrátt viðbragð við umhverfinu“.
„Þetta á við um þau flest - Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar o.s.frv. Það er voða sjaldan að maður heyrir eitthvað jákvætt eða uppbyggilegt úr þessari átt. Vælið er nánast eins og ósjálfrátt viðbragð við umhverfinu.“
Undir þetta taka fjölmargir í athugasemdum við færsluna, sem fengið hefur hátt í 500 „læk“. Einn þeirra er söngvarinn ástsæli Bergþór Pálsson:
„Það virðist vanta kjark, þor, hreystimennsku, harðfengi, þrek og ábyrgðartilfinningu. Ævinlega byrjað að grenja um að aðrir eigi að ausa fé og taka á sig ábyrgðina ef eitthvað fer úrskeiðis. Eins og ofdekraðir krakkar.“
Arnar Eggert Thoroddsen tónlistarfræðingur bendir á forsíðugrein mbl.is í sinni athugasemd, sem honum þykir „sérstök“.
„Forsíðugrein mbl. var sérstök. Fyrirsögn og upphaf greinar þannig að ALLT væri á tjá og tundri og skaðinn óbætanlegur ... nokkrum línum neðar segir forstjórinn að of snemmt sé að meta tjónið?“

Komment