
Ísland stal stigi á móti Sviss í milliriðlaleik liðsins á HM í handbolta en leiknum lauk 38-38.
Allan leikinn voru strákarnir okkar að elta Svisslendingana, sem héldu forustunni mest allan tímann en staðan var þó 19-19 í hálfleik. Allan seinni hálfleikinn eða allt fram á síðustu mínútu leiksins var Sviss með forystuna en þá náði Elliði Snær Viðarsson að jafna metin með áttunda marki sínu í leiknum.
Þegar tvær mínútur voru eftir var Ísland tveimur mönnum fleiri í 50 sekúndur sem liðið nýtti til að jafna. Ísland var í góðri stöðu í síðustu sókninni en náðu ekki að nýta það til þess að stela sigrinum.
Íslenska liðið neyðist nú til þess að treysta á önnur úrslit, ef það ætlar að komast í átta liða úrslit. Ísland keppir á móti Slóveníu á morgun en mögulega er ekki nóg að vinna þann leik.
Sóknarleikur Íslands var til fyrirmyndar en það sama er ekki hægt að segja um varnarleikinn því nánast allt virtist leka inn hjá Svisslendingunum.
Auk Elliða var Orri Freyr Þorkelsson markahæstur í liði Íslands, með átta mörk en Viggó Kristjánsson átti sjö mörk, þar af þrjú úr vítaköstum. Viktor Gísli Hallgrímsson varði sjö mörk í leiknum en Björgvin Karl Gústavsson þrjú.

Komment