
VG ætlar sér að bjóða fram undir eigin merkjum í Reykjavík í sveitastjórnakosningum á næsta ári, segir formaður flokksins, Svandís Svavarsdóttir.
Hún segir ennfremur að það sé ákvörðun svæðisfélaga í hverju sveitarfélagi fyrir sig hvernig staðið verður að framboði í sveitastjórnakosningum.
Nýverið sagði Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG að enn væri óákveðið hvort VG myndi bjóða fram undir eigin merkjum.
„Hér á höfuðborgarsvæðinu og sérstaklega í Reykjavík þá eru engar efasemdir hjá VG í Reykjavík að við bjóðum fram undir okkar eigin merkjum. Það kann auðvitað að vera að einhverjir aðrir eigi samleið með okkur, eins og gengur. Það munu næstu vikur og mánuðir leiða í ljós,“ sagði Svandís í samtali við RÚV.
Svandís segir innviði VG vera öfluga og segir einnig að undirbúningur fyrir kosningar sé á fullu þessi misserin.
„Við erum staðráðin í því að lyfta flaggi VG í aðdraganda sveitastjórnarkosninga hvar sem því verður við komið. Síðan er það ákvörðun svæðisfélaganna sjálfra í hverju sveitarfélagi fyrir sig hvernig það er gert; undir merkjum VG eða í samstarfi við annað fólk sem er sama sinnis.“
Svandís hefur rætt við félaga sína í VG um land allt; segir að það sé hugur í flokksmönnum.
„Við höfum átt samleið nú þegar með hreyfingum sem hafa verið á þessum félagshyggju og vinstri væng íslenskra stjórnmála. Við höfum átt það víða um land og við teljum að við eigum hér eftir sem hingað til samleið með slíkum hreyfingum. Hvort sem það verði í sameiginlegum áherslum eftir kosningar eða meirihlutasamstarfi eða hvort það er í aðdraganda kosninga undir sameiginlegum listum eins og við höfum séð víða um land,“ sagði Svandís Svavarsdóttir.
Komment