
Lenya Rún Taha Karim, lögfræðingur og fyrrverandi varaþingmaður Pírata, gagnrýnir harðlega orðræðu um innflytjendamál sem hún segir vera komin „út í algjöra markleysu“. Tilefni skrifanna er umræða á Alþingi þar sem Snorri Másson lýsti vilja til að skoða úrsögn Íslands úr EES-samstarfinu í tengslum við innflytjendamál.
Lenya segir, í Facebook-færslu í gær, það „verulega óábyrgt af flokki, sem mælist n.b. með töluvert fylgi, að færa umræðuna um innflytjendamál niður á það plan að íslenskt atvinnulíf, ferðafrelsi Íslendinga og viðskiptasambönd Íslands við önnur ríki vegi minna en „þessi þróun í innflytjendamálum“, líkt og Snorri orðaði það upp í pontu í dag.“
Hún bætir við að ef málflutningurinn væri ekki jafn fráleitur og hún telur hann vera, mætti jafnvel kalla hann „smá virðingarverðan“, þar sem einn málaflokkur sé metinn svo veigamikill að „allt í einu er úrsögn úr EES-samstarfinu flott lausn.“
Þrátt fyrir að vilja trúa því að kjörnir fulltrúar þekki skuldbindingar Íslands á sviði þjóðaréttar, segist Lenya vilja minna á tilgang EES-samningsins. Hún vitnar orðrétt í fyrstu grein samningsins og segir hana „ansi skýra um tilgang þess“:
„Markmið þessa samstarfssamnings er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist hér á eftir EES.“
Að lokum hvetur hún til þess að umræðan færist yfir á önnur brýn samfélagsmál og spyr: „Í alvöru, er ekki kominn tími til að tala um eitthvað annað en útlendinga, t.d. húsnæðismál eða eitthvað?“

Komment