
Eva Bryngeirsdóttir er í Mannlífsviðtali. Hún er tæplega fertug en hefur upplifað sorgir og áföll sem hafa haft mikil áhrif á líf hennar. Hún tók líf sitt í gegn í kjölfar foreldramissis og kulnunar og fór að huga að hollu líferni og mataræði sem og hreyfingu. Hún nýtir þekkingu sína og reynslu í eigin lífi og er í dag útlærður einkaþjálfari. Ástina fann hún aftur í örmum Kára Stefánssonar og gengu þau í hjónaband í lok síðasta árs. Hér má sjá brot úr viðtalinu:
Fór í kulnun
Eva samdi við vinnuveitanda sinn um að fara í 75% vinnu og var því einstæð móðir með tvö börn í 75% vinnu og 100% námi. „Það var svolítið verkefni og ég var alltaf að keyra í bæinn til að fara í þessar lotur og spurði barnsföður minn hvernig ég ætti að púsla þessu saman. Hann spurði hvort ég þyrfti ekki að flytja í bæinn svo ég gæti klárað námið. Það voru og eru góð samskipti á milli okkar.“
Eva ók þvert yfir landið í einum rykk.
„Ég fékk að vinna út frá útibúinu á höfuðborgarsvæðinu en fyrirtækið er með skrifstofur bæði á Reyðarfirði og þar. Þetta gerðist allt mjög hratt. Öllu var pakkað niður og flutningabíllinn kom í hádeginu á þriðjudegi en ég hafði lagt af stað keyrandi ein með strákana eldsnemma um morguninn. Á miðvikudagsmorgni komu allir kassarnir í íbúð í Kópavogi. Þetta var svolítið ýkt. Ég keyrði í einum rykk með tvo litla stráka. Þetta eru 730 kílómetrar. Ég skilaði svo verkefni í skólanum á föstudeginum og tók próf á laugardeginum. Þannig að þetta var brjáluð keyrsla,“ segir hún og á ekki bara við ökuferðina frá Eskifirði.
„Ég var á þessum tíma á lokakúri á dekutan-húðlyfjakúr en eftir sambandsslitin fór húðin í andlitinu á mér gjörsamlega í rugl. Ég varð einn daginn í vinnunni allt í einu rennandi blaut í andlitinu af olíu og í kjölfarið fékk ég mjög slæmar þrymlabólur.“
Álagið var of mikið og líkaminn lét vita af því.
Eva segir að í enda kúrsins tíðkast að tvöfalda kúrinn í lokin en að læknir fyrir austan hafi sagt að hún gæti það ekki vegna þess að hún væri of létt fyrir þann skammt. Hún fór svo til annars læknis í Reykjavík sem sagði henni að það væri komið að lokum á þessum lyfjakúr og því yrði að tvöfalda skammtinn í lokin. Þá komu fljótt meiri aukaverkanir sem höfðu áhrif á liðina sem varð til þess að hún varð að draga úr hreyfingu.
„Ég man eftir því að ég sat einn daginn heima í tölvunni og var að skrifa og var farin að gleyma hlutum. Ég mundi ekki einu sinni hvernig ég átti að tengja yfir á hinn skjáinn. Smátt og smátt sagði taugakerfið „ekki meir, ekki meir“.“
Það var þarna sem Eva nauðhemlaði.
„Ég brást í grát einn daginn þar sem ég sat við tölvuna að vinna heima. Ég vissi ekki af hverju. Ég hringdi í vinnuveitanda minn og sagði að ég væri veik. Ég talaði svo við heimilislækninn og sagðist ekki vita hvað væri í gangi. Ég sagði að ég hefði misst báða foreldra mína, ég hefði gengið í gegnum sorg og erfiðleika en nú væri eitthvað ennþá meira að. Læknirinn tók á móti mér og sagði svo að ég væri í 100% námi, 75% vinnu og einstæð móðir með leikskólabörn og að dæmið gengi ekki upp. Hann sagði að ég væri komin í kulnun og að það væri verkefni að koma til baka. Hann sagði að þetta yrði langhlaup, ekki spretthlaup. Og hann bara stöðvaði mig.“
Þetta var í apríl 2021 og á sama tíma var Eva að ljúka seinni önninni í einkaþjálfaranáminu og segist hún ekki muna eftir seinasta áfanganum.
Erfið endurkoma
„Ég var alltaf að reyna að koma til baka. Ég var ekkert tilbúin í það. Ég vildi alltaf fara af stað og vildi ekkert bíða en það virkaði ekki þarna. Þarna sagði líkaminn bara „það er this way or no way“. Ég kláraðist algjörlega. Ég hafði enga stjórn á líkamanum. Ég sótti strákana í leikskólann og svo kom ég inn um dyrnar, settist í útifötunum í sófann og datt út. Ég bara sofnaði. Ég hafði enga stjórn þannig að ég fór í djúpa holu.
Læknirinn sagði að hreyfing væri það sem ég þyrfti á að halda til að vinna á streitu. Hann sagði að ég ætti að hreyfa mig á hverjum degi í tuttugu mínútur til hálftíma og að það væri mitt meðal hvern einasta dag, bara ekki af sömu ákefð og áður fyrr.
Hreyfingin er það sem hélt mér á lífi. Þessi litla daglega hreyfing gerði það að verkum að andlega hliðin kom hægt og bítandi til baka. Og það var rosalega eriftt að díla við þetta af því að það skildi þetta enginn að einstaklingur í veikindaleyfi gæti stundað daglega líkamsrækt.
Ég hafði aldrei upplifað þunglyndi en þetta var klárlega þunglyndi þegar ég fór á botninn í kulnun. Ég hrundi alla leið. Mér fannst eins og ég hefði dáið og mér fannst eins og ég hefði fengið þarna tækifæri til að lifna aftur við; mér fannst eins og þarna væri sénsinn. Ég gat átt líf aftur. Ég þurfti að velja vel hvað ég vildi gera því ég hafði svo litla orku. Ég skoðaði allt í lífi mínu svo sem í hvað ég var að verja tíma. Ég fór að skoða hvað skiptir mig máli, hvað nærir mig, hvað mér finnst gott, hvar mín grunngildi eru og í hvaða samskiptum ég vil eiga. Mér fannst eins og ég hefði fengið tækifæri til þess að lifa á ný. Mér fannst ég upplifa aftur allan heiminn í kringum mig með því að eiga stundir með strákunum, finna gleðina og gefa mér tíma í að fíflast með þeim og setja tónlist á og dansa og flippa. Lífið er öll þessi míkró-móment, labba úti og sjá litina breytast í kringum sig. Maður þarf að skynja þetta.
Þarna byrjaði ég að stunda hugleiðslu og datt algjörlega inn í þann heim að skoða allt þetta andlega. Það var algjör gjöf fyrir mig en á sama tíma var það svolítið flókið vegna þess að mér fannst ég verða öðruvísi en allir í kringum mig. Mér fannst eins og atriði sem skiptu mig máli væru almennt ekki það sem fólk í kringum mig væri að pæla í. Mér fannst enginn skilja hvernig fókusinn minn í lífinu væri þannig að ég einangraðist svolítið fyrir vikið. Mér fannst ekki gott að leita í hvaða félagsskap sem er. Það var margt sem breyttist við þessa kulnun.“

Komment