
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá því í dagbók sinni frá því í gærkvöldi og í nótt að tilkynnt hafi verið um slagsmál í austurbæ Reykjavíkur. Tveir voru handteknir vegna málsins en þeim var sleppt skömmu síðar þar sem ekki var þörf á frekari aðgerðum.
Þrír menn voru handteknir grunaðir um fíkniefnamisferli. Fíkniefni fundust á heimili mannanna og voru þeir vistaðir í fangageymslu lögreglu í þágu rannsóknar málsins.
Lögregla var kölluð til vegna eignaspjalla þar sem rúða í bifreið var brotin, líklega vegna þjófnaðar. Málið er í rannsókn að sögn lögreglu.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna umferðaróhapps þar sem bifreið var ekið inn í hlið annarrar bifreiðar. Einn aðili slasaðist eitthvað í árekstrinum en gat komið sér sjálfur á sjúkrahús.
Tveir menn voru handteknir fyrir hótanir, fjársvik og vopnalagabrot eftir að hafa hótað leigubílstjóra eftir að þeir neituðu að greiða fyrir akstur. Mennirnir fóru til síns heima eftir að hafa hótað bílstjóranum þar sem þeir voru svo handteknir af lögreglu.

Komment