
Fjöldafundur undir yfirskriftinni „Þjóð gegn þjóðarmorði“ verður haldinn á Austurvelli í Reykjavík laugardaginn 6. september klukkan 14.00. Markmið fundarins er að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni og krefjast þess að íslensk stjórnvöld bregðist við aðstæðum í Palestínu með raunverulegum aðgerðum.
Í tilkynningu frá skipuleggjendum segir að almenningur hafi í nær tvö ár fylgst með versnandi aðstæðum á Gaza þar sem íbúar glími við manngerða hungursneyð og daglegu mannfalli. Vísað er til gagna ísraelska hersins um að mikill meirihluti fórnarlamba séu almennir borgarar, þar af tugir barna á hverjum degi. Skipuleggjendur segja að um þjóðarmorð af hálfu Ísraelsríkis sé að ræða og að stríðsglæpum verði að linna.
Að baki fundinum standa fjölmörg samtök launafólks, stéttarfélög, mannúðar- og réttindasamtök auk félaga innan lista- og fræðasamfélagsins. Þar á meðal eru Alþýðusamband Íslands, BSRB, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands, Amnesty International, Barnaheill, Öryrkjabandalagið og Samtökin 78, auk fjölda annarra félaga og grasrótarhópa.
Skipuleggjendur segja að tímabil yfirlýsinga og undanbragða sé liðið og að nú sé kominn tími til aðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda. Dagskrá fundarins verður kynnt síðar.
Komment