
Fjórir aðilar gista fangageymslur á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina, samkvæmt dagbók lögreglunnar. Mikið var um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Hér eru nokkur dæmi úr atburðum næturinnar.
Ökumaður var stöðvaður við almennt umferðareftirlit í miðbæ Reykjavíkur en í ljós kom að hann var án ökuréttinda. Einnig voru skráningarmerki bifreiðarinnar fjarlægð vegna vanskila á vátryggingu. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu.
Lögreglunni barst tilkynning um aðila í annarlegu ástandi í miðbæ Reykjavíkur en hann stóð ekki í lappirnar sökum ölvunar. Var hann því vistaður í fangaklefa vegna ástandsins.
Tilkynning barst um tvo aðila í annarlegu ástandi í bílastæðahúsi í Laugardalnum. Samkvæmt tilkynnanda voru þeir að reyna að komast inn í bíla. Eftir að lögreglan ræddi við þá var þeim vísað á brott.
Þá hafði lögreglan afskipti af öðrum aðila í annarlegu ástandi í Laugardalnum en hann stóð þó upp sjálfur, afþakkaði hjálp lögreglu og gekk sína leið.
Í Laugardalnum barst tilkynning um húsbrot og rán í íbúð en ræninginn var handtekinn stuttu síðar, skammt frá vettvangi og var færður í fangaklefa vegna málsins.
Og enn af Laugardalnum, ökumaður var þar stöðvaður vegna gruns um ölvunarakstur. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Að því loknu var hann frjáls ferða sinna.
Ökumaður var stöðvaður í Háaleitis- og Bústaðahverfi vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð til blóðsýnatöku en var laus að því loknu. Það sama má segja um ökumann sem stöðvaður var í Hafnarfirði, grunaður um það sama.
Þá var ökumaður í Garðabæ stöðvaður vegna gruns um akstur undir ávana- og fíkniefna. Kom í ljós að hann reyndist einnig án ökuréttindar auk þess sem hann var ekki í öryggisbelti við akstur. Var hann fluttur á lögreglustöð til blóðsýnatöku en sleppt að því loknu.
Í Breiðholtinu var hringt í lögregluna vegna aðila í annarlegu ástandi í verslun. Var honum vísað á brott án vandræða.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir í Grafarholtinu, grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en í ljós kom með annan þeirra að hann var án ökuréttinda. Voru þeir báðir handteknir og færðir á lögreglustöð til blóðsýnatöku en frjálsir ferða sinnar eftir það.
Komment