
Gauti B. Eggertsson, hagfræðiprófessor við Brown University og bróðir Dags B. Eggertssonar, veður í Samtök fyritækja í sjávarútvegi í nýrri Facebook-færslu.

„Það er átakanlega dapurt – og dálítið hákátlegt – að sjá áróður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi gegn eðlilegum veiðigjöldum sem miðast við raunverulegt verð sjávarafla á frjálsum markaði,“ segir Gauti í upphafi færslu sinnar en í vikunni tilkynnti ríkisstjórnin um hækkun veiðigjalda en SFS hefur gagnrýnt fyrirætlunina harðlega.
Gauti heldur áfram:
„En þau vildu ekki greiða gjöld sem endurspegla markaðsverð fisks. Lausnin? Þau stofnuðu eigin vinnslustöðvar og seldu sjálfum sér fiskinn á hálfu verði – og greiddu þannig aðeins helming veiðigjalda.
Nú segjast þau ekki lengur geta selt fiskinn til eigin vinnslustöðva á raunverulegu verði? Að þau neyðist til að selja til annarra? Eru þau í raun að játa að vinnslustöðvarnar hafi eingöngu verið stofnaðar til að komast hjá veiðigjöldum – að um sé að ræða hreina fjárböðun?“
Því næst snýr Gauti sér að sjómönnunum:
„Og hvað með sjómennina?
Laun þeirra eru tengd verði aflans – verði sem útgerðarfélögin ákveða sjálf. Þannig losa þau sig bæði við veiðligjöld og launagreiðslur í samræmi við verðmæti aflans.
Þetta bitnar á launum sjómanna, tekjum sveitarfélaga sem reiða sig á launaskatt – og samfélaginu öllu. Útgerðarmenn hafa löngu sýnt að þeir teygja sig eins langt og þeir geta til að komast hjá því að borga til samfélagsins – og fela svo ágóðann í Panama eða öðrum fjármálaparadísum.“
Þá gerir hagfræðiprófessorinn lítið úr réttlætingu SFS um veiðireynslu frá 1984:
„Þetta fáránlega fyrirkomulag er svo réttlætt með einhverri veiðireynslu frá 1984. En hún var eiginlega engin – því innan við áratug áður höfðum við loks fært landhelgina út í 200 mílur. Aldalöng veiðireynsla á auðlindinni okkar var ekki í höndum þessara aðila. Hún gaf þeim engan hefðarrétt, þrátt fyrir þá í Sjálfstæðisflokknum sem reyna að telja okkur trú um annað. Veiðireynslan var að mestu hjá veiðimönnum í Hull og víðar – en ekki hjá kvótagreifunum, hvað þá annarri, þriðju eða fjórðu kynslóðu þeirra. Og það var ekki útgerðarmönnum að þakka að landhelgin var færð út – það var barátta þjóðarinnar allrar.“
Gauti bendir ennfremur á tengsl útgerðarmanna og Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins:
„Svo má velta fyrir sér hverjir þessir upphaflegu „útgerðarmenn“ voru eiginlega. Þetta var fólk sem fékk fyrirgreiðslu frá ríkisbönkum, reknir á pólitískum forsendum helmingaskiptastjórna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks – þar sem lán voru veitt til skipakaupa samkvæmt pólitískum tengslum. Eða fólk með rétta tengingar sem tóku yfir báta sem reknir voru á vegum sveitafélaga, samvinnufélaga osfrv, fyrir slikk.“
Prófessorinn rífur því næst í sig kvótaerfingjana:
„Hámark lágkúrunnar er þegar þessi svikamylla bitnar á þeim sem vinna raunverulegt starf – konum og körlum út á bátunum, sem oft setja eigið líf í hættu við að veiða fiskinn. Á meðan situr þriðja kynslóð kvótaerfingja – sem fæst hefur pissað í saltan sjó – að gæða sér á kavíar og kampavíni. Afi og amma fengu úthlutað kvóta sem áður hafði verið nýttur af Englendingum og öðrum – og það í gegnum pólitísk tengsl við banka og aðra.“
Að lokum spyr Gauti hver beri ábyrgð á ástandinu í sjávarútveginum:
„Útgerðarmenn selja fiskinn sjálfum sér á niðurgreiddu verði – og borga hvorki samfélaginu né sjómönnunum það sem þeim ber. Svo er ágóðanum komið undan, jafnvel með því að halda tekjum erlendis og fela þær í skattaskjólum.
Hver ber ábyrgð?
Hvenær ætla sjómenn – og fólkið sem stundar raunverulega vinnu við auðlindina okkar – að segja: Hingað og ekki lengra?
Stjórnvöld eru loksins búin að berja í borðið. Það var kominn tími til. Sjómenn og landsbyggðarfólk eiga að gera það sama.
Það er búið að hafa þjóðina að fíflum allt of lengi.“
Komment