
Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Ísland- Palestína, hefur vakið athygli á Facebook á því að Vínbúðin hafi selt vín frá fyrirtækjum sem starfa á ólöglegum landnámsbyggðum á Vesturbakkanum í Palestínu. Í færslu sinni gagnrýnir hann stjórnvöld fyrir aðgerðir sem hann telur ófullnægjandi í ljósi mannréttindabrota Ísraels í Palestínu.
Hjálmtýr bendir á að Vínbúðin hafi áður selt vín frá fyrirtækinu Psagot, sem starfar í ólöglegri byggð í Palestínu. Eftir að Félagið Ísland–Palestína benti á uppruna vínanna hurfu þau úr hillum ríkisfyrirtækisins.
Nú eru vín frá Clos de Gat Harel Winery til sölu í Vínbúðinni. Hjálmtýr bendir á að fyrirtækið flutti höfuðstöðvar sínar frá Mateh Yehuda í Ísrael yfir á hernuminn Vesturbakkann, nánar tiltekið til landnámsbyggðarinnar Sha’ar Binyamin, þrátt fyrir að vefur Vínbúðarinnar sýni uppruna vínanna sem „Ísrael – Judean Hills“.
Í færslu sinni gagnrýnir Hjálmtýr aðgerðir ríkisstjórnarinnar að merkja vörur frá því sem hann kallar „landránsbyggðum“ sem „ómerkileg viðbrögð við þjóðarmorði“ og skorar á stjórnvöld að setja viðskiptabann á allar ísraelskar vörur til að styðja Palestínumenn.
Komment