
Holly Willoughby hefur játað sök í því að hafa keyrt mann af rafhlaupahjóli. Hin þriggja barna móðir, 44 ára, ók án nægrar aðgæslu þegar hún lenti á fórnarlambinu nærri þriggja milljóna punda heimili sínu í ágúst, að því er fram kom fyrir dómi.
Réttarhöld fóru fram í dag við Lavender Hill héraðsdóminn í Lundúnum, en Holly mætti ekki persónulega. Fyrrverandi þáttastjórnandi This Morning játaði sök með bréfi vegna aksturs án nægrar aðgæslu.
Fyrir dómnum var sýnt myndband þar sem Holly beygir til hægri inn á hliðargötu á svörtum Mini Cooper-bíl sínum, sem metinn er á 25 þúsund pund, án þess að gefa stefnuljós. Þar klessti hún á hvítt Piaggio-hlaupahjól sem kom á móti.
Fórnarlambið, sem ekki var nafngreint, sást kastast af hjólinu þegar það skall á bíl Holly. Hann hlaut brotinn hálshryggjarlið og tábrot við slysið.
Holly var í dag dæmd til að fá sex stig á ökuskírteinið sitt og greiða sekt upp á 1.653 pund eða um 280.000 krónur . Einnig var henni gert að greiða 130 pund í málsmeðferðarkostnað og 661 pund í miskabætur.
Verjandi hennar, Aisling Byrnes, sagði að sjónvarpskonan hefði lent í því að „taka ranga ákvörðun eitt augnablik“, og bætti við: „Henni þykir þetta mjög miður“.
„Þetta var hvorki vegna hraðaksturs né vegna slæmra veðurskilyrða. Þetta voru einfaldlega mistök sem eru mjög ólík henni; hún hefur hreint sakavottorð í umferðinni og er almennt afburðargóð manneskja. Hún harmar þetta mjög, hún steig út úr bílnum, bauð honum símann sinn og vatn og var á vettvangi þar til sjúkraliðar komu.“
Saksóknari málsins, Geraldine Dickinson, sagði hins vegar: „Sakborningur ók [Mini-bílnum] í Barnes. Ætlunin var að beygja til hægri, sem hún gerði án þess að gefa stefnuljós, og hjólandi maðurinn kastaðist af hjólinu. Hann hlaut C7 hryggbrotsáverka og brotna tá. Ég hef yfirlýsingu frá fórnarlambinu. Hann var á hvítu Piaggio-hjóli, um 180 metrum frá rauðu umferðarljósi.“
Í yfirlýsingu fórnarlambsins segir: „Ég ók á um 20 mph hraða og var byrjaður að hægja á mér til að stöðva. Þegar ég var samsíða svörtum Mini Cooper-bílnum beygði ökumaðurinn til hægri án þess að gefa stefnuljós til að fara inn á götuna. Þetta olli því að ég kastaðist í götuna.“
Dómarinn, David Charnley, sagði við uppkvaðningu dóms: „Baldwin (eiginnafn eiginmanns hennar) hefur játað sök við fyrsta tækifæri vegna aksturs án nægrar aðgæslu. Það var hvorki notað stefnuljós né virðast speglar hafa verið skoðaðir, eða af einhverjum ástæðum sá Baldwin ekki hlaupahjólamanninn.“
Málið kemur upp á sama tíma og fregnir herma að Holly sé að undirbúa endurkomu í sjónvarp eftir að hafa hætt í This Morning fyrir tveimur árum.
Nýjustu verkefni hennar hafa meðal annars verið You Bet! með Stephen Mulhern, sem hún hætti í í mars, og Celebrity Bear Hunt með Bear Grylls, sýnt á Netflix, sem var síðan lagt af á þessu ári.
Raunveruleikaþátturinn Dancing On Ice var einnig lagður af af ITV á þessu ári, sem þýðir að Holly er án þáttastjórnunar í fyrsta sinn í yfir 20 ár.

Komment