
Alls voru 88 mál skráð í kerfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17:00 í gær til 05:00 í morgun, samkvæmt dagbók hennar. Alls gista átta manns í klefa hennar.
Fram kemur í dagbókinni að nokkrir ökumenn hafi verið sektaðir fyrir ýmis konar umferðalagabrot eins og fyrir að hafa filmur í hliðarrúðum, fara yfir á rauðu ljósi, aka án ökuréttinda og fleira í þeim dúr. Þá voru nokkrir þeirra stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna en þeim var sleppt eftir blóðsýnatöku. Þá voru nokkur heimilisofbeldismál tilkynnt en ekki var frekar farið í saumana á þeim málum í dagbókinni.
Lögreglan á Hverfisgötu fékk tilkynningu um innbrot í fjölbýli í Reykjavík en reynt var að komast í nærri því allar geymslur fjölbýlisins en tjón var á flestum hurðum. Lögreglan rannsakar málið.
Sama lögregla var kölluð til vegna árekstrar og afstungu en ökumaðurinn reyndist ölvaður. Var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Þegar skemmtistaðir voru við það að loka brutust út slagsmál á Ingólfstorgi en árásaraðilarnir létu sig hverfa áður en lögreglan kom á vettvang en hún rannsakar nú málið.
Lögreglan sem annast Hafnarfjörð og Garðabæ fékk tilkynningu um umferðarslys þar sem aðili hafði ekið á ljósastaur. Var bifreiðin nokkuð skemmd eftir áreksturinn en ökumaðurinn slapp blessunarlega með minniháttar meiðsli. Sama lögregla hjálpaði ofurölva manni af bar og til síns heima.
Að lokum segir í dagbókinni að lögreglan sem starfar í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi, hafi borist tilkynning um grjót sem hafði verið kastað í gegnum rúðu á heimili í Reykjavík. Vitað er hver gerandinn er og er máið í rannsókn.
Komment