
Björn Þorláksson, fjölmiðlamaður hjá Samstöðinni, gagnrýnir stjórnarandstöðuna harðlega í færslu á Facebook og segir þingmenn hennar hafa sökkt sér enn dýpra í „lágkúru og eyðileggingarstarf“ með áframhaldandi málþófi á Alþingi.
Björn vísar til umræðunnar um kílómetragjald og segir málþóf stjórnarandstöðunnar þar enn eitt dæmið um hvernig framvindu mikilvægra mála sé vísvitandi tafið.
Hann tekur fram að hann sé sjálfur ósammála frumvarpinu, en telur engu að síður að það réttlæti ekki þá aðferðafræði sem beitt sé á þinginu.
Hann rifjar jafnframt upp umræðuna um veiðigjöld í sumar, þegar gripið var til sérstakra ráðstafana til að tryggja framgang þingstarfa. Að hans mati hefðu stjórnarandstöðuflokkarnir átt að draga lærdóm af þeirri stöðu, ekki síst í ljósi fylgistaps í skoðanakönnunum í kjölfarið.
„Í sumar í veiðigjaldaumræðunni þurfti að beita sérstöku ákvæði til verndar lýðræðinu. Ég hélt þau myndu læra af því og læra af hruni fylgis í skoðanakönnunum í kjölfarið. Almenningur sendi þeim skýr skilaboð.“
Björn segir almenning hafa sent skýr skilaboð um óánægju með vinnubrögðin, en engu að síður haldi stjórnarandstaðan áfram á sömu braut. Hann bendir á að í daglegu lífi þurfi fólk oft að sætta sig við ákvarðanir sem það hefur ekki stjórn á og láta þær ekki grafa undan samstarfi, hvort sem er innan fjölskyldna eða á vinnustöðum.
Í færslunni vísar Björn einnig til skrifa Egils Helga, þar sem hann segir stjórnmál fyrst og fremst eiga að snúast um sameiginleg markmið á borð við frið, öryggi og traust. Hann undirstrikar að núverandi ríkisstjórn hafi fengið lögmætt umboð kjósenda til að stýra landinu í fjögur ár, óháð því hvaða flokkar skipi hana eða hversu reynslumiklir þeir séu.
Að lokum gagnrýnir Björn það sem hann lýsir sem stöðugan skæting og móðgunargirni í stjórnarandstöðunni og bendir á að hluti hennar vilji jafnframt rjúfa EES-samninginn, sem hann kallar eina af helstu undirstöðum velferðar Íslands.
„Kannski er ekki málefnalegt að spyrja þannig: En hvað er eiginlega að þessu andskotans pakki í stjórnarandstöðunni?
Málþóf og aftur málþóf. Skætingur á skæting ofan. Móðgunargirni á móðgunargirni ofan.
Og einn þriðji stjórnarminnihlutans vill að auki að helstu velferðarmöguleikum Íslands verði kippt úr sambandi, sjálfri gullgæsinni, þ.e.a.s. EES-samningum?“

Komment