
Björn Birgisson, samfélagsrýnir frá Grindavík, fjallar í nýrri færslu á Facebook um notkun heitisins „Samspillingin“ sem sumir gagnrýnendur beita yfir Samfylkinguna. Hann segir að ef horft sé til kosningaúrslita og þróunar stuðnings flokkanna á undanförnum árum sé ástæða til að spyrja hvort gagnrýninni sé réttilega beint.
Í færslunni bendir Björn á að við alþingiskosningarnar árið 2021 hafi Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sem hann nefnir „gömlu helmingaskiptaflokkana“, fengið samanlagt um 82.700 atkvæði, á meðan Samfylkingin fékk um 19.000 atkvæði.
Hann bendir á að í kosningunum 2024 hafi staðan snúist við; ríkisstjórnin hafi fallið, Samfylkingin tekið forystu í stjórnarmyndun og nú, ári síðar, mælist flokkurinn langstærstur á landinu samkvæmt skoðanakönnunum.
Björn segir að fylgi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafi á sama tíma hrunið um meira en 35.000 atkvæði samanlagt og að flokkarnir hafi aldrei áður mælst með jafnlítið fylgi, hvorki hvor um sig né samanlagt. Á sama tíma hafi Samfylkingin farið úr 19.000 atkvæðum í um 44.000.
„Hvar liggur Samspillingin?“ spyr Björn og vekur athygli á því að kjósendur virðist vera að refsa ákveðnum flokkum fyrir „taumlausa spillingu og sérhagsmunagæslu árum saman“. Hann hvetur til þess að umræðan sé heiðarleg og byggð á staðreyndum, fremur en uppnefnum eða klisjum.
Björn lýsir notkun heitisins „Samspillingin“ sem „aulalegri“ og segir að það sé tilraun til að dreifa athyglinni frá raunverulegum vandamálum stjórnmálanna. „Samspillingin stendur föstum rótum hjá helmingaskiptaflokkunum. Hvergi annars staðar,“ skrifar hann að lokum.

Komment