
Rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson segir að hann skilji að dómsmálaráðuneytið þurfi að kanna mál sem varða möguleg misnotkun á reglum um dvalarleyfi erlendra námsmanna, en hún hvetur dómsmálaráðherra jafnframt til að setja reglur sem tryggi aukna mannúð í útlendingamálum. Við færsluna birtir hann skjáskot af frétt um nýjar og harðari reglur varðandi erlenda nemendur hér á landi.
Í færslu sem Illugi birti á Facebook segir hann að hann viti ekkert um málið sem fjallað var um í fréttum, en ef reglur hafi verið misnotaðar sé eðlilegt að það sé kannað til hlítar. Hins vegar segist hann sakna þess að sjá dómsmálaráðherra, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, taka frumkvæði í að setja mannúðlegar reglur.
„Það er vel hægt að hafa frekar stranga útlendingastefnu, ef fólk vill, en hafa samt það ófrávíkjanlega prinsip að börnum sem hér eru fædd eða hafa fest hér rætur verði aldrei og bara aldrei vísað úr landi,“ skrifar Illugi.
Hann segir að slíkar reglur ætti Þorbjörg Sigríður að setja og ítrekar spurningu sína um afdrif barna fólks frá Dagestan sem vísað var úr landi í september.
„Það er voða skynsamlegt örugglega að vilja ganga í augun á þeim kjósendum sem hafa áhyggjur af of mikilli fjölgun hælisleitenda, Þorbjörg Sigríður, en hvernig væri að ganga í augun á okkur hinum með þessu lítilræði? Ég efast um að það yrði um að ræða tíu börn á ári. Finnst þér til of mikils mælst?“

Komment