
Rithöfundurinn og fjölmiðlamaðurinn Illugi Jökulsson segir að umræðan um aukna upplýsingaöflun og gagnasöfnun hér á landi, sem oft er réttlætt með tilvísun til vaxandi ógnar frá Rússum, megi ekki skyggja á að hættur geti einnig komið úr annarri átt.
Í færslu á Facebook í gær bendir Illugi á að framganga ríkisstjórnar Donalds Trump á Grænlandi sýni að Bandaríkin geti beitt óeðlilegum þrýstingi og afskiptum af innri málum annarra þjóða. Hann segir að atburðirnir þar hafi ekki verið „krúttlegur kjánaskapur eða barnalegt brambolt“ heldur „grafalvarlegur undirróður erlends ríkis, yfirgangur og óviðurkvæmileg afskipti.“
Illugi tekur undir að Rússar séu raunveruleg ógn sem ekki megi gera lítið úr, en telur að Íslendingar verði nú að svara því hvort stefna eigi að því að halda sér í skjóli fyrir Bandaríkjunum næstu ár, í þeirri von að stjórn Trumps „taki ekki eftir okkur,“ eða hvort við þurfum að horfast í augu við, eins og hann orðar það, „ógnina að vestan.“
„Bandaríkin geti vel farið að haga sér gagnvart okkur eins og þau hafa gert gagnvart Grænlandi,“ skrifar Illugi, og veltir fyrir sér hvort það sé jafnvel þegar hafið.
Komment