
Kveikt verður á kertum við Reykjavíkurtjörn í kvöld til minningar um þá ungu drengi sem hafa látist undanfarið á Íslandi.
Í lýsingu á viðburðinum á Facebook er fólk hvatt til að kveikja á kerti „til minningar um unga drengi sem kerfið hefur ekki gripið og eru látnir.“ Þá segir ennfremur að það verði engin læti á viðburðinum, engar ræður verða haldnar, „bara þögn og kerti til marks um ærandi þögnina sem mætir þessum drengjum og fjölskyldum þeirra.“
Fólk er einnig hvatt til þess að gefa sér tíma í annríki jólanna í ljósi þess að of margar fjölskyldur þurfi nú að halda jólin án drengjanna sinna.
„Eitt kerti fyrir hverja sál sem ljós þess slokknaði allt of snemma.“
Sú sem stendur fyrir viðburðinum, Margrét Þorgrímsdóttir ræddi við Mannlíf um tilurð hans.
„Mér fannst ég þurfa að leggja mitt á vogarskálarnar til vitundarvakningar varðandi öll þessi andlát ungra drengja síðustu árin,“ segir Margrét og segir ástandið hafi versnað á Íslandi þegar litið er til slæma stöðu drengja.
„Það hefur verið talað um slæma stöðu drengja í menntakerfinu í mörg ár og staðan bara versnar, andlátum fjölgar hratt í takt við að úrræðum fækkar fyrir þann hóp sem passar ekki í þennan týpíska ramma.“
Margrét hvertur einnig bæjarfélög, fyrirtæki og einstaklinga til þess að slökkva öll ljós frá 18:00-19:00 til að sýna málaflokknum samstöðu.
„Mig langaði bara að sýna samstöðu í verki með öllum þessum fjölda drengja sem hafa látið lífið. Mig langar líka að hvetja alla slökkva öll ljós í þennan klukkutíma, bæjarfélög, fyrirtæki og einstaklinga - að við sem samfélag sýnum samstöðu.“
Að lokum bendir Margrét á að ekki standi til að fleyta kertunum á Tjörninni, þar sem henni hafi verið bent á skaðsemi slíks fyrir fuglalífið en þess í stað verður kertum raðað í kringum Tjörnina.
Viðburðurinn hefst klukkan 18:00 og líkur klukkan 19:00.

Komment