Síðustu helgi var kirkjuþing Þjóðkirkju Íslands sett í 67. sinn og var meðal annars ný stjórn kirkjunnar kjörin.
Aðalmenn í stjórn úr röðum leikmanna eru Árni Helgason, Einar Már Sigurðarson og Rúnar Vilhjálmsson sem jafnframt var endurkjörin formaður stjórnar. Varamenn þeirra eru Anna Guðrún Sigurvinsdóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir. Aðalmenn úr röðum vígðra þjóna í stjórninni eru sr. Arna Grétarsdóttir og sr. Þuríður Björg W. Árnadóttir. Varamaður þeirra er sr. Guðni Már Harðarson.
Þá sendi kirkjuþing frá sér ályktun þar sem er óskað eftir að Alþingi veiti kirkjunni meira fjármagn.
Ályktun kirkjuþings
Kirkjuþing lýsir yfir þungum áhyggjum af þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við þjóðkirkjusöfnuðum um allt land ef ekki kemur til veruleg hækkun á sóknargjöldum fyrir næsta ár. Eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir að sóknargjöld verði enn á ný skert sem mun hafa veruleg áhrif á fjárhag sókna landsins.
Ljóst er að þjóðkirkjan gegnir mikilvægu andlegu, félagslegu og menningarlegu hlutverki í samfélaginu með öflugri starfsemi fyrir fólk á öllum aldri. Skerðing á sóknargjöldum mun hafa bein áhrif á þjónustu kirkjunnar í nærsamfélaginu. Kirkjuþing skorar á stjórnvöld að hækka sóknargjaldið fyrir næsta ár og minnir á að samkvæmt lögum um sóknargjöld ætti gjaldið að vera kr. 2765 á mánuði.


Komment