
Buckingham-höll er sögð hafa undirbúið sig fyrir sjokkerandi fréttir um Andrés prins eftir að „áhyggjuefni“ tengd Meghan Markle komu upp, samkvæmt heimildum.
Meghan var sökuð um einelti gagnvart starfsfólki hjá Kensington-höll á þeim stutta tíma sem hún starfaði innan konungsfjölskyldunnar. Hertogaynjan neitaði þráfaldlega öllum ásökunum og sagðist ekki hafa komið illa fram við neinn starfsmann. Þá hafa fullyrðingar fylgt henni eftir frá því hún flutti til Kaliforníu um að hún geti verið erfiður yfirmaður, þar sem starfsmenn í Bandaríkjunum hafi lýst því að samstarfið hafi reynst krefjandi. Aðrir hafa þó staðið dyggilega með Meghan og sagt að hún hafi lagt sig fram um að hugsa vel um sitt fólk.
Greint var frá því að rannsókn hefði farið fram innan hallarinnar á þessum ásökunum en niðurstöður hennar voru aldrei birtar opinberlega, og sérfræðingur um konungsfjölskylduna heldur því nú fram að sú ákvörðun hafi verið tekin til að vernda Andrés prins.
Fullyrðingin kemur fram í nýrri ævisögu eftir Andrew Lownie um bróður konungs og fyrrverandi eiginkonu hans, Sarah Ferguson.
Í bókinni Entitled: The Rise and Fall of the House of York, er því haldið fram að Andrés hafi í gegnum tíðina komið mjög illa fram við starfsmenn og að „skýrsla um Markle hafi aldrei verið birt, þar sem sumir segja að hún myndi einnig varpa ljósi á hegðun sonar drottningarinnar.“
Lownie skrifar: „Eftir að Meghan Markle var sökuð um einelti gagnvart starfsfólki, var Buckingham-höll viðbúin eldri kvörtunum um illindum, blótsyrðum og ómögulegum kröfum hertogans.“
Fyrrverandi aðstoðarmaður Andrésar var sagður hafa grátið eftir að hertoginn öskraði á hann í símhringingu vegna þess að Andrés var óánægður með frétt í blaðinu The Sun. Starfsmaður var færður úr starfi þar sem Andrés „líkaði ekki við fæðingarblett á andliti mannsins“, og annar vegna þess að „hann var með nælontrefil“.
Fyrrverandi persónulegur aðstoðarmaður drottningarmóðurinnar sagði í bókinni að í samskiptum sínum við Andrés hefði hann orðið þeirrar skoðunar að hann væri „dónalegur, fávís og óþolandi náungi“.
Í eitt skiptið átti Andrés að hafa kallað starfsmann „helvítis fávita“ fyrir að nota rangt ávarp um drottningarmóðurina.
Að sögn aðstoðarmannsins var hann ekkert „sérstaklega skemmtilegur einstaklingur“.
„Hann talaði við starfsfólkið, þar með talið mig, eins og yfirmaður talar við undirmenn. Hann sagði hluti á borð við: „Ég vil að þetta verði gert og það strax“ eða „Ljúktu þessu fyrir þennan tíma.“ Ég man að hann sagði alltaf „Gerðu það!“ sem var eins konar einkennisorð hans,“ var haft eftir honum.
Starfsmaðurinn sagði að framkoma Andrésar væri miklu ólíkar þeirri virðingu sem Karl konungur og aðrir meðlimir konungsfjölskyldunnar sýndu sínu starfsfólki.

Komment