
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra varar við sundrungu í samfélaginu í nýju viðtali við Heimildina og segir mikilvægt að stjórnmálamenn axli ábyrgð með því að ræða samfélagsbreytingar af hreinskilni, áður en ótti og einfaldar lausnir fá að festa rætur.
Popúlískir straumar hafa verið áberandi í stjórnmálum síðustu ár og Íslendingar hafa kynnst slíkum flokkum allt frá fjármálahruninu. Sé litið yfir íslenska stjórnmálasögu síðustu fimmtán ára má finna fjölda slíkra framboða sem hurfu jafnhratt og þau komu. Að undanförnu hefur þó orðið vart við nýjan tón í umræðunni, einkum þegar kemur að innflytjendamálum. Að mati Kristrúnar Frostadóttur stendur Ísland þó enn fremur hófsamt í alþjóðlegum samanburði.
„Ég er almennt á þeirri skoðun að við virðumst þeirrar gæfu aðnjótandi að pólitískt litróf hefur verið frekar þröngt á Íslandi. Það sem ég á við er að við séum enn á ágætum stað. En ég get alveg tekið undir að það glitti í ákveðna umræðu sem endurspeglast að einhverju leyti á samfélagsmiðlum, og stundum í fjölmiðlum, sem keyrir á sundrungu. Ég hef sagt að við eigum að keyra á samstöðu. Við erum lítil þjóð og okkar helsti styrkleiki liggur í samstöðunni. Það er ekkert svigrúm til þess að skipta þjóðinni upp í marga hópa hér á landi. Þannig að það er auðvitað áhyggjuefni ef maður upplifir að svona ákveðin tegund af pólitík, sem keyrir á sundrungu, sé farin að rísa.“
Kristrún bendir á að umræðan hafi tekið breytingum samhliða samfélagsþróun. Hún nefnir Miðflokkinn sérstaklega og segir sig ekki hafa heyrt sannfærandi efnahagsrök frá flokknum, þó hún viðurkenni að mögulegt sé að finna sameiginlegan grundvöll í útlendingamálum.
„Hvað útlendingamálin varðar, þá er ýmislegt sem við getum náð saman um í útlendingamálum. Ég held að það liggi alveg fyrir. Það þarf ekki annað en að skoða þau mál sem eru að fara í gegnum þingið. Það sem ég hef hins vegar gert athugasemd við er eðli málflutningsins. Það er stundum verið að tengja saman þætti sem eru eðlisólíkir. Flóttamenn til dæmis eru ekki sami hópur og efnahagslegir innflytjendur. Það þarf að vera hægt að aðgreina þetta.“
Í framhaldinu bendir blaðamaður Heimildarinnar á að umræðan um útlendinga hafi orðið sífellt flóknari og óskýrari, þar sem ólík málefni séu oft sett undir sama hatt. Í viðtalinu er Kristrún spurð hvernig hún horfi á aukna fordómafulla orðræðu í samfélaginu.
„Ég held að það sé ábyrgðaratriði að ef fólk er farið að upplifa óöryggi í íslensku samfélagi og tengja það beint við útlendinga þá þurfi að vera hægt að tala um þær breytingar sem hafa átt sér stað í íslensku samfélagi. Ef ábyrgir stjórnmálamenn gera það ekki skapast tómarúm fyrir óábyrga stjórnmálamenn til að leiða þá umræðu. Og eins og þú réttilega sagðir hér áðan, umræðan hefur breyst, en íslenskt samfélag hefur líka breyst.“
Hún rifjar upp að fyrir áratug eða tveimur hafi komu flóttamanna verið fátíð og vakið mikla athygli, enda um einstök tilvik að ræða fremur en heilan málaflokk.
„Fyrir 10 til 15 árum síðan, þegar það komu flóttamenn til Íslands, þá voru þetta örfáar fjölskyldur á ári. Þetta þóttu slík tíðindi að þau enduðu í fréttunum. Þá var talað við fjölskyldur sem fóru á Akranes, vestur á land og svo framvegis. Þetta var stór atburður í íslensku samfélagi því þetta var fjölskyldan með greini. Þetta var ekki málaflokkur. Þetta voru stök tilvik. Og þá var tilfinningin sú að þetta væri eitthvað sem við gætum haldið uppi án vandræða. Síðan verða auðvitað breytingar á Íslandi og umheiminum öllum, sérstaklega upp úr 2013, 2014 og 2015.“
Á sama tíma hafi orðið mikill efnahagsuppgangur, einkum vegna ferðaþjónustu, sem hafi haft áhrif á samsetningu vinnumarkaðarins.
„Sérstaklega þegar kemur að streymi efnahagslegra innflytjenda til landsins í gegnum EES, í gegnum Evrópu. Og það hefur ekki verið vilji til að tala um það, að sú atvinnustefna sem hefur verið stunduð á Íslandi hafi skapað þær aðstæður að við höfum skapað störf sem Íslendingar ekki vilja vinna. Þau hafa verið auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Því hefur fylgt mikil sókn erlendra aðila hingað til landsins sem hafa verið í alls konar aðstæðum.“
Kristrún segir þessa þróun hafa aukið ójöfnuð og fjarlægð milli hópa í samfélaginu.
„Stundum hefur fólk verið í ágætri vinnu, stundum hefur fólk ekki verið í neinni sérstakri vinnu og það hefur í rauninni skapað aukna stéttaskiptingu á Íslandi. Það býr til þessa glufu á milli fólks,“ segir hún og bætir við: „Fólk sem er að vinna þannig vinnu er oft í litlum tengslum við Íslendinga sem eru fæddir og uppaldir hér á landi. Þannig að það verður rosaleg fjarlægð á milli fólks. Og það er ekki hægt að taka þá þróun úr samhengi við þá umræðu sem kannski aðrir flokkar nærast á.“
Að lokum leggur Kristrún áherslu á ábyrgð stjórnmálamanna í að ræða þessar breytingar af hreinskilni.
„Það sem stjórnmálamenn hafa líka flaskað á, á undanförnum árum, í öllum flokkum, er að tala um samfélagsbreytingarnar sem hafa átt sér stað. Hvort þær hafi verið of hraðar, hvort við höfum getað ráðið við þær, hvort við höfum getað staðið undir velferðarþjónustunni og svona samfélagslegri þjónustu sem hefur skapað heilbrigt samfélag. Þannig að fyrir mér eru viðbrögð við þessu ekki að segja að það sé eitthvað að fólki sem hugsar svona, heldur velti ég fyrir mér hvernig þessar aðstæður sköpuðust.“
Hún veltir einnig upp spurningum um upplifun fólks og hvernig megi bregðast við henni.
„Er fólk að upplifa óöryggi þessu tengdu? Og hvernig er hægt að vinna í því með praktískum hætti? Af því auðvitað er það mjög neikvæð þróun ef rasismi er farinn að grassera í íslensku samfélagi. Það þurfa allir að vera að mínu mati sammála um að það er ekki samfélag sem við viljum búa í. Það þýðir ekki að það séu ekki undirliggjandi áskoranir sem ábyrgir stjórnmálamenn þurfa að takast á við, því ef við tökum ekki á þeim og horfumst í augu við vandann, mun bara einhver annar hlaupa inn á sviðið með einfaldari sýn á heimsmyndina og fá atkvæði á þeim forsendum.“

Komment