
Matvælastofnun (MAST) rannsakar nú atvik þar sem lax slapp úr eldisstöð Laxeyjar í Vestmannaeyjum. Stofnuninni barst tilkynning um málið þriðjudaginn 16. desember eftir að óhapp varð við flutning fisks milli tanka í eldisstöð fyrirtækisins í Viðlagafjöru.
Samkvæmt upplýsingum frá rekstrarleyfishafa varð bilun í tengslum við flutninginn, með þeim afleiðingum að dauðir fiskar fundust í fjöruborðinu þar sem fráveita stöðvarinnar liggur út í sjó. Fyrirtækið hefur upplýst Matvælastofnun um að tveir laxar hafi sloppið lifandi út í sjó við atvikið.
Í kjölfar tilkynningarinnar virkjaði Laxey strax viðbragðsáætlun vegna stroks. Net voru lögð út og hafnar veiðar á mögulegum strokulaxi á svæðinu.
Í eldiskerinu sem um ræðir voru alls 142.242 laxar og var meðalþyngd þeirra um 2,2 kílógrömm.
Matvælastofnun segir ekki hægt að útiloka að fleiri laxar hafi sloppið og hefur því kallað eftir frekari gögnum frá Laxey til að varpa skýrara ljósi á atburðarásina. Rannsókn málsins stendur enn yfir.

Komment