
Líf Magneudóttir borgarfulltrúi VG segir mikilvægt að flokkurinn bjóði fram undir eigin merkjum, en að ákvörðunin verði tekin af stofnunum flokksins á komandi mánuðum.
Í Morgunblaðinu í dag sagði Líf í alls óvíst hvort VG byði fram í borginni:
„Klárlega ætlum við að bjóða fram, en við vitum ekki með hvaða hætti við gerum það. Nú þegar erum við í blönduðum framboðum um allt land. Það liggur fyrir að við bjóðum okkur fram í borginni. Hvenær það verður gefið út, við eigum eftir að ákveða það.“
Sagði Líf að ennþá væri óvíst hvernig yrði stillt upp á lista sem og hvort það yrði undir merkjum VG.
Formaður flokksins, Svandís Svavarsdóttir, sagðist fyrr á þessu ári, að samstarf við aðra flokka kæmi alveg til greina, en Líf sagðist telja afar mikilvægt að flokkurinn myndi bjóða fram undir eigin merkjum og að svo stöddu gerir Líf ráð fyrir því að bjóða sig fram.
„Það er mín skoðun að auðvitað eigi VG að bjóða fram undir sínum eigin merkjum með hreint framboð í borginni á næsta ári. En það er auðvitað ekki bara mín ákvörðun sem ræður, heldur tökum við ákvörðun á félagslegum grunni í stofnunum flokksins. Þannig að það er engan bilbug á okkur að finna. Til þess að taka af allan vafa þá klárlega ætlum við að gera það en við eigum formlega eftir að taka ákvörðun.“
Segir Líf að afar mikil vinna sé núna fram undan næstu mánuðina og að einhver málefni muni mögulega taka breytingum, en hins vegar sé stefna flokksins alveg skýr:
„Við erum skýr valkostur til vinstri og tölum fyrir félagshyggju og umhverfisvernd. Það væri mjög dapurlegt ef sú rödd fengi ekki að heyrast á vettvangi sveitastjórnanna eins og hún heyrist nú þegar.“
Komment