Myrkir músíkdagar eru fram undan og í tilefni af því verður efnt til sérstakrar foropnunar á Borgarbókasafninu Grófinni sunnudaginn 25. janúar, klukkan 15:00–16:00.
Viðburðurinn gefur gestum kost á að kynna sér verk tveggja listamanna, Lilju Maríu Ásmundsdóttur og Jespers Pedersen, sem bæði vinna á mörkum hljóðlistar og rýmis.
Lilja María Ásmundsdóttir kynnir innsetninguna Hidden Trails. Verkið samanstendur af lágstemmdri hljóðmynd og fjölbreyttum áþreifanlegum skúlptúrum sem framkalla hljóð við snertingu og meðhöndlun. Innsetningin sækir bæði hljóðrænan og hugmyndalegan innblástur í heim bókasafna og hlutverk þeirra í daglegu lífi.
Jesper Pedersen sýnir verkið Lóðrétt hljómekra, fjölrása hljóðinnsetningu fyrir hátalara og söngskálar. Verkið spannar allan stigagang bókasafnsins og skapar hljóðrænar tengingar milli hæða byggingarinnar. Með verkinu gefst hlustendum færi á að upplifa rýmið á nýjan hátt, í formi lóðréttrar hljómekru sem leggur áherslu á nærveru og djúpa hlustun.
Að sögn skipuleggjenda má því búast við fjölbreyttri myndrænni og hljóðrænni upplifun á bókasafninu næstkomandi sunnudag.


Komment