
Búlgarska lögreglan hefur hafið leit að Ólafi Austmann, íslenskum manni á fimmtugsaldri, sem hefur ekki sést síðan á bensínstöð í Sofia þann 18. ágúst. Síðan þá hefur ekkert til hans spurst. Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Systir Ólafs birti færslu á Facebook þar sem hún hvetur fólk sem dvelur í Búlgaríu eða hefur tengsl þangað að hafa augun opin.
Ólafur er um 184 sentímetrar á hæð, grannvaxinn og dökkhærður. Hann var klæddur í svarta skyrtu og gallabuxur þegar hann sást síðast. Samkvæmt systur hans hefur hann glímt við veikindi og krampaköst. Þá er hann þá bæði án síma, skóbúnaðar og skilríkja.
Í samtali við fréttastofu RÚV segir Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, að tilkynning um hvarf Ólafs hafi borist 21. ágúst. „Þá fór í gang hefðbundið ferli og haft var samband við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra sem sendi fyrirspurn til lögreglunnar í Búlgaríu. Hann fór úr landi í júlí og síðast sást til hans 18. ágúst,“ segir Garðar.
Leitin hefur hingað til ekki skilað árangri, en Ólafur er nú skráður í alþjóðakerfi lögreglu sem týndur einstaklingur.
Komment