
Lögreglunni barst tilkynning um mögulegan hnífaburð er nokkur ungmenni mætti á skólalóð Seljaskóla í dag. Ekki var hægt að staðfesta hnífaburðinn þar sem ungmenninn voru farin þegar lögreglu bar að.
Tölvupóstur var sendur á foreldra miðdeildar Seljaskóla í Breiðholtinu í dag, þar sem sagt var frá því að þrjú ungmenni, úr öðrum grunnskóla, hafi mætt á skólalóð Seljaskóla í dag og haft í hótunum við nemendur. Fullyrtu nokkur börn að eitt ungmennanna hafi verið með hníf á sér. Mannlíf heyrði í ritara Seljaskóla sem staðfesti málið en sagði að ekkert ofbeldi hafi átt sér stað. „Þetta var allt í kjaftinum á þeim,“ sagði ritarinn.
Mannlíf ræddi einnig við Kristmund Stefán Einarsson aðalvarðstjóri á lögreglustöð 3, sem sér um Kópavog og Breiðholtið. Hann sagði það rétt að tilkynning hefði borist frá Seljaskóla um mögulegan hnífaburð en ekki væri hægt að staðfesta þann grun. Ungmennin hafi verið farin þegar lögreglu bar að en ekki er vitað hverjir þetta voru.
Annað mál kom einnig upp á dögunum í Seljaskóla en lögreglu barst tilkynning um að ungmenni við skólann væri að selja skærgrænan brjóstsykur sem innihélt THC (efni unnið úr kannabisplöntunni Cannabis Sativa). „Það kom ábending um það og það var bara unnið með skólayfirvöldum og barnaverndaryfirvöldum og það er búið að ræða við þann sem átti að hafa verið með þetta. En það fundust engir sleikjóar og málinu er bara lokið,“ sagði Kristmundur í samtali við Mannlíf.
Komment