Tomasz Bereza hefur búið á Íslandi síðan 2013. Hann talar íslensku, hefur starfað hér lengi og eiginkona hans og börn eru íslensk. Þrátt fyrir að vera hluti af samfélaginu hefur hann síðustu ár átt í stöðugum erfiðleikum með heilbrigðiskerfið vegna alvarlegs eyrnasjúkdóms sem tók sig upp í desember 2022. Mannlíf ræddi við Tomasz um reynslu hans og baráttu til að fá viðeigandi meðferð.
Upphafið
„Ég fékk mjög slæma eyrnabólgu sem endaði með rofinni hljóðhimnu og heilahimnubólgu. Ég var fluttur á spítala með sjúkrabíl, með blæðandi eyra og mikla verki. En eftir aðeins 40 mínútur var ég sendur heim,“ segir Tomasz við Mannlíf og heldur áfram. „Eftir þetta missti ég heyrnina á hægra eyra og það tók meira en hálft ár að ná einhverri eðlilegri heyrn aftur.“ DV fjallaði um málið á sínum tíma sem og Vísir.
„Síðan þá glími ég við höfuðverki, smellandi hljóð í eyra og vöðvaspennu í kjálka. Ég hef þurft að leita til fjölda lækna, bæði hér á Íslandi og erlendis, án þess að fá raunverulega lausn. Þetta hefur haft mjög mikil áhrif á lífsgæði mín,“ segir Tomasz.
Þú ferðaðir til Póllands til að leita frekari aðstoðar. Hvernig gekk það?
„Ég fór til The Center of Hearing and Speech MEDINCUS í Kajetany í júlí 2025. Einn viðtalstími dugði til að fá meiri upplýsingar en ég hafði fengið síðustu ár hér heima. Án gríns, læknirinn skoðaði segulómskoðun og tölvusneiðmyndir í kannski tvær eða þrjár mínútur og benti á þrjá mjög mikilvæga hluti, en einn þeirra tengdist ekki því sem ég var að koma til hans út af. Læknirinn greindi stikilbólgu (e. mastoiditis), óvenjulega þunnt skilrúmi milli beins og heilans og taugavandamál í hinu eyranu. Hann sagði að aðgerð væri nauðsynleg til að hreinsa beinið og koma í veg fyrir lífshættulegar fylgikvilla.“
Að sögn Tomaszar vildu læknarnir senda hann í aðgerð undir eins. „Þeir vildu framkvæma aðgerðina strax, en ég þurfti að láta Heilbrigðisstofnunina vita af þessari niðurstöðu og skipuleggja vinnu mína og fjölskyldumál vegna þessa. Ég hélt að þetta yrði bara formsatriði og allt myndi ganga vel. Ég bókaði aðgerðina í miðjum september og kom aftur til Íslands. Og þá byrja öll vandamálin.“
Tomasz sagðist hafa vonað að hann fengi aðstoð í ljósi þess hversu lengi hann hefði búið hér á landi og hefði sterka tengingu við Ísland
„Ég hef búið á Íslandi síðan 2013, tala íslensku og hef unnið hér síðan þá. Konan mín er Íslendingur og börnin mín eru Íslendingar. Ég greiði skatta hér og vona að ég fái fljótlega einnig íslenskan ríkisborgararétt. Svo ég hugsaði að kannski gæti heilbrigðisþjónustan hér hjálpað mér að greiða niður greiðsluna þar sem enginn hér er tilbúinn að hjálpa mér.“
Skriffinnskuhelvíti
Hvernig brugðust íslensk heilbrigðisyfirvöld við þessu?
„Ég sótti um endurgreiðslu fyrir aðgerð erlendis hjá Sjúkratryggingum Íslands. Fólkið þar leiðbeindi mér um hvernig ég ætti að gera það: Fara til heimilislæknis og láta hann fylla það út fyrir mig og það væri nóg. Svo ég bókaði tíma á heilsugæslustöð en það tók nokkra daga fyrir þau að fylla út eyðublaðið því þau vissu ekki hvernig á að gera það.“
Læknirinn hins vegar samþykkti ekki að Tomasz þyrfti á aðgerð að halda.
„Í eyðublaðinu stóð að ég þyrfti aðgerð, en íslenski læknirinn samþykkti það ekki og svo framvegis. Loksins þegar ég fékk skjölin fór ég á Sjúkra, gaf þeim þau og mér var tjáð að afgreiðslutíminn væri 6-8 vikur sem ég hafði ekki. Þeir sögðu að ég ætti að skrifa tölvupóst á vefsíðu Sjúkra og það myndi hjálpa til við að flýta fyrir þessu. Ekkert þessu líkt gerðist. Ég beið og beið og hringdi en fékk engin svör frá þeim um hvað ég gæti gert. Eina vandamálið var að ég get ekki farið til Póllands án leyfis, geri ég það, fæ ég ekki endurgreitt.“
Nákvæmlega átta vikum síðar fékk umsókn hans synjun.
„Ég færði aðgerðina mína þá til október. Nákvæmlega átta vikum eftir að ég sendi umsokn fékk ég svar þar sem stóð að mér hefði verið hafnað. Skjölin voru ekki rétt útfyllt og sá eini sem getur gert það er háls, nef og eyrnalæknir. Sjúkra hefur nokkrar reglur um fjármögnun sem segja til um: Annað hvort er aðgerð ekki í boði á Íslandi eða biðtíminn er mjög langur.“
Torsótt samskipti
Segir Tomasz að heimsókn til HNE-læknis hafi ekki verið til fjár.
„Svo ég hafði samband við lækni hjá HNE og fékk tíma tveimur vikum síðar. Ég fór þangað og útskýrði hvað ég þyrfti. Hann sagði að þetta væru „ekki eldflaugavísindi“ þegar ég útskýrði fyrir honum hversu góða meðferð ég hafi fengið í Póllandi, en það lét mér líða eins og ég væri að gera of mikið úr þessu. Að lokum sagði hann að já, þessi aðgerð væri í boði hér en það væri langur biðtími eftir henni og hann þekkti sérfræðinginn sem er sá eini sem framkvæmir þessa aðgerð hér á Íslandi, sem var eitt af skilyrðunum fyrir endurgreiðslu, og samþykkti að fylla út eyðublaðið. Hann sagði að hann myndi gera það sama dag og senda það á sjúkrahúsið sjálfur. Vá, hvað það var heimskulegt af mér að trúa því. Heimsóknin var 10. október. Ég hringdi 12. október til að athuga hvort hann hefði sent eyðublaðið, það gerði hann ekki. Ég hringdi í tvær vikur og bað um að það yrði hringt til mín til baka. Ég gerði það fimm sinnum en hann gerði það ekki fyrr en 22. október.“
Þá tilkynnti læknirinn að hann myndi fylla út eyðublaðið og skilja það eftir handa honum á skrifstofunni, svo hann gæti sótt það næsta föstudag.
Skipt um skoðun
„Á fyrrnefndum föstudegi tók ég mér hádegishlé til að sækja pappírana en þegar ég var næstum komin þangað fékk ég símtal frá lækninum. Hann sagði að hann hefði ráðfært sig við þann eina sérfræðing sem framkvæmir þessa aðgerð hér og að það væri engin ástæða fyrir mig að fara í þessa aðgerð því hún myndi ekki breyta neinu fyrir mig. Og aðeins þessi sérfræðingur væri rétti maðurinn til að fylla út skjölin, sem augljóslega myndi ekki gerast. Hann minntist líka á að þeir vildu gera aðgerð bara til að fá borgað! Ég er að velta fyrir mér hversu mikla peninga heilbrigðisþjónustan hefur borgað fyrir mig á þessum árum sem ég hef reynt að átta mig á hvað er í gangi, ég þori að veðja að þeir gætu borgað fyrir tvær til þrjár aðgerðir eins og þessa fyrir þann pening. Ég var svolítið harður við hann, satt best að segja. Hann sagði að hann myndi ráðfæra sig aftur við þennan sérfræðing og hringja í mig á mánudag, sem gerðist aldrei, í dag er liðin meira en vika.
Líkamlega og tilfinningalega erfitt
Tomasz segir málið hafa legið þungt á honum.
„Það hefur verið mjög erfitt. Þetta er ekki bara líkamlegur sársauki heldur hefur þetta haft áhrif á andlega heilsu mína. Ég hef misst trúna á heilbrigðiskerfinu hér og finn fyrir miklum vonbrigðum. Og ég er ekki bara að tala um mína reynslu, ég þekki þó nokkra sem hafa einnig verið að berjast við heilbrigðiskerfið hér. Ég vil bara fá viðeigandi meðferð og lifa heilbrigðu lífi.“
Hvað ætlarðu að gera núna?
„Ég mun fara í aðgerðina á eigin forsendum, jafnvel þó það kosti mig mikla peninga. Ef það dregur úr höfuðverkjum og minnkar hættuna á sýkingum, þá er það þess virði. Ég vil standa upp fyrir réttinum til að fá hjálp og viðeigandi heilbrigðisþjónustu.“
Egó lækna stærri en þekkingin
Segist Tomasz afar ósáttur við heilbrigðiskerfið á Íslandi og læknana sem þar starfa.
„Heilbrigðisþjónustan hér er mjög ófagmannleg, læknar hér halda að þeir viti allt en í raun og veru eru þeir ekki mjög hjálpsamir og egóið þeirra er miklu stærra en þekking þeirra og þeir eru ekki tilbúnir að hjálpa þegar einhver þarf á því að halda,“ segir Tomasz og heldur áfram: „Kerfið er líka fullt af rugli, það er auðvelt fyrir þá að skera niður fjármuni frá fólki sem þarfnast þeirra í raun og veru, allt tekur mikinn tíma og hvað ef einhver hefur ekki tíma? Hver tekur ábyrgð ef veikindi dregur einhvern til dauða ef hann er ekki meðhöndlaður í tæka tíð?“
Að lokum segist Tomasz ekki vera að biðja um mikið.
„Aðalatriðið er að ég vil bara standa með réttindum mínum til að fá rétta meðhöndlun og vera heilbrigður. Ég er ekki að biðja um mikið! Ég ber ekki mikið traust til heilbrigðisþjónustunnar hér lengur, ef hún getur ekki hjálpað mér, af hverju ekki að gefa einhverjum öðrum tækifæri?“


Komment