
DoorDash-sendill var handtekinn eftir að rannsókn leiddi í ljós að sendillinn, sem er kona, hefði vísvitandi úðað piparúða á skyndibitapöntun viðskiptavina. Atvikið náðist á myndband og varð til þess að par fór að kafna, kastaði upp og óttast alvarlega hvað það hefði innbyrt.
Kourtney Stevenson var handtekin á föstudag og ákærð meðal annars fyrir að hafa spillt neysluvöru og valdið líkamsárás sem leiddi til miðlungs alvarlegs líkamstjóns. Samkvæmt lögreglu var Stevenson að vinna næturvakt fyrir DoorDash í Indiana þegar hún á að hafa mengað Arby’s-pöntun rétt áður en hún afhenti hana.
Einn þeirra sem varð fyrir atvikinu segir að eiginkona hans hafi tekið nokkra bita áður en hún fór skyndilega að eiga erfitt með andardrátt og kasta upp. Þá skoðaði hann pokann og tók eftir óvenjulegum leifum.
Parið fór yfir upptökur úr dyrabjöllumyndavél sinni, þar sem sjá má sendilinn setja pokann niður, taka skyldubundna afhendingarmynd, og síðan úða innihald pokans áður en hún gengur í burtu.
Stevenson var fljótlega fundin og handtekin. Lögregla segir hana síðar hafa haldið því fram að hún hafi verið að úða könguló, en rannsóknaraðilar töldu þá skýringu ótrúverðuga og bentu á að köngulær væru vart á ferli í 1,6 gráðu hita.
DoorDash endurgreiddi parinu pöntunina og slökkti varanlega á aðgangi Stevenson að kerfinu. Fyrirtækið segir að það hafi ekkert umburðarlyndi gagnvart hegðun sem stofnar öryggi viðskiptavina í hættu.

Komment