
Pólitísku flóttakonurnar og liðskonur Pussy Riot, þær Diana Burkot og Nadya Tolokonnikova gagnrýna harðlega ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að vísa fjölskyldu Gadzhi Gadzhiev og Mariiam Taimova úr landi. Í grein á Vísi segja þær að „hér hafi verið framið ólýsanlegt hermdarverk, svo ómannúðlegt að það á sér enga málsvörn.“
Í greininni fjalla þær um að hjónin hafi flúið „ógnarstjórnina“ í Rússlandi ásamt syni sínum og leitað skjóls á Íslandi. Þar eignaðist Mariiam tvíbura eftir erfiða meðgöngu og keisaraskurð, en aðeins tveimur vikum síðar hafi börnin verið „send til Króatíu ásamt foreldrum sínum“.
Konurnar segja að íslensk stjórnvöld hafi með því að vísa þeim úr landi „skilið fjölskylduna og bakland þeirra að.“ Þau lýsa Gadzhi sem manni sem fæddist inn í fjölskyldu sem „þorði að segja sannleikann“ og segja að honum hafi í Rússlandi verið „rænt, pyntaður og dæmdur í fimm ára fangelsi“ fyrir það eitt að hafa talað gegn einræðinu.
„Það eina sem þau þráðu var að sameinast fjölskyldu sinni og lifa við öryggi,“ skrifa þær.
Pussy Riot konurnar lýsa einnig undrun sinni á að íslensk stjórnvöld taki slíka ákvörðun. „Það er með öllu óskiljanlegt að Útlendingastofnun skuli vísa úr landi fólki sem stendur frammi fyrir því einu að sæta pyntingum og fangelsun. Hvernig getur þetta gerst hér?“ spyrja þær og bæta við:
„Hvernig getur Ísland — land sem státar sig af verndun mannréttinda, samstöðu og samkennd — tekið þátt í þessari grimmd Pútíns?“
Þær segja jafnframt að með ákvörðuninni hafi íslensk stjórnvöld orðið „hluti af þeirri ofbeldismaskínu sem fólkið er að flýja frá.“
Bæta þær við:
„Það auðveldasta er að loka augunum og ímynda sér að þetta sé ekki til — að lifa sínu eigin lífi, í sínum eigin heimi, og kjósa að hunsa óréttlætið sem kostar fólk lífið.“
Greinin endar á ákalli til stjórnvalda og almennings:
„Við krefjumst þess að íslensk stjórnvöld komi þessari fjölskyldu aftur hingað — og endurskoði stefnu sína gagnvart flóttafólki og pólitískum útlögum.“
Þær hvetja fólk til að nota raddir sínar „og með samtakamáttinn að leiðarljósi, þá komum við fjölskyldunni aftur til Íslands.“
Komment