
Andriy Portnov, sem var einn helsti ráðgjafi Viktors Janúkovítsj, fyrrverandi forseta Úkraínu, var skotinn til bana fyrir utan hlið skólabyggingar í bænum Pozuelo de Alarcón á Spáni á miðvikudag, samkvæmt fréttum Sky News og Reuters.
Samkvæmt Reuters barst lögreglu tilkynning um skotárásina klukkan 9:15 að staðartíma. Yfirvöld hafa ekki formlega gefið upp nafn fórnarlambsins, en Sky News greinir frá því að Portnov hafi verið að skutla börnum sínum í American School of Madrid þegar óþekktur árásarmaður hóf skothríð.
Portnov, sem var 51 árs gamall, fæddist í Luhansk-héraði í Úkraínu og starfaði sem lögfræðingur áður en hann var kjörinn á úkraínska þingið árið 2006. Eftir að Júlía Tymosjenkó tapaði forsetakosningunum árið 2010 var hann lögmaður hennar fyrir dómstólum. Á árunum 2011 til 2014 gegndi hann stöðu ráðgjafa hjá forsetaembætti Janúkovítsj og tók þátt í samningahópi stjórnvalda á tímum Euromaidan-mótmælanna með það að markmiði að leysa pólitíska kreppu í landinu. Hann varð síðar aðstoðarskrifstofustjóri forsetaembættisins. Portnov yfirgaf Úkraínu snemma árs 2015.
Árið 2021 beittu Bandaríkin Portnov þvingunaraðgerðum og sögðu hann hafa mútað sér leið inn í dóms- og lögreglukerfi Úkraínu og notað áhrif sín til að hafa áhrif á niðurstöður dóma. Árið 2019 tilkynnti Portnov að hann væri snúinn aftur til Úkraínu. Hann lýsti yfir stuðningi við Volodymyr Zelensky í forsetakosningunum og hóf að leggja fram kærur á hendur Petro Poroshenko, þáverandi fyrrverandi forseta, þar sem hann sakaði hann um „refsiverðan verknað“ í embættistíð sinni. Í júní 2022 yfirgaf Portnov Úkraínu á ný.
Komment