
Tilkynning barst lögreglunni á Hverfisgötu um mann sem var að munda þrjá hnífa í miðborginni. Þegar lögregla kom á vettvang varð maðurinn flóttalegur og reyndi að komast undan. Laganna verðir sáu hins vegar við honum og handtóku hann. Reyndist hann vissulega vera með þrjá hnífa á sér og þegar betur var að gáð fundust einnig meint fíkniefni á honum. Kemur þetta fram í dagbók lögreglunnar.
Þá barst lögreglunni einnig tilkynning um kött sem væri fastur í Tezlu-bifreið. Er lögreglan mætti á vettvang mátti sjá að eigandi bifreiðarinnar var búinn að taka hægra framhjólið af bifreiðinni ásamt innra bretti. Heyra mátti mjálm koma út úr Tezlunni að framanverðu þar sem farangursrýmið er. Hlíf í farangursrýminu var einnig fjarlægð en þá sást loksins í köttinn. Var honum gefinn harðfiskur og hjálpaði það við að róa köttinn, svo hægt væri að ná honum út úr bifreiðinni. Óljóst er hversu lengi kötturinn hafði verið í bifreiðinni, sem og hvernig hann komst þangað. Farið var með köttinn á lögreglustöð þar sem eigandinn sótti hann.
Lögreglan sem annast útköll í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi barst tilkynning um aðila sem hafði dottið af hestbaki og misst meðvitund. Ekki var vitað um líðan aðilans þegar dagbókin var send á fjölmiðla.
Kópavogs- og Breiðholtslögreglan fékk tilkynningu um líkamsárás, þjófnað og skemmdarverk en gerandinn er góðkunningi lögreglunnar og fannst stuttu frá vettvangi. Var hann handtekinn og vistaður vegna málsins. Einnig var aðili stöðvaður í akstri grunaður um að aka undir áhrifum fíkniefna. Þá fundust einnig ætluð fíkniefni á honum.
Lögreglan sem starfar í Grafarvogi, Mosfellsbæ og í Árbæ fór í útkall vegna ölvaðs ökumanns sem hafði ekið utan í aðra bifreið og ekið á brott. Hafði hún upp á kauða og vaknaði strax grunur um ölvun hjá ökumanni. Var hann handtekinn og vistaður vegna málsins.
Komment