
Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar, fer fögrum orðum um frammistöðu ráðherra og stjórnmálaleiðtoga í Silfri RÚV í Facebook-færslu sinni eftir þáttinn sem sýndur var í gærkvöldi. Hann beinir þó jafnframt beittum spjótum að Sjálfstæðisflokknum og formanni hans.
Í færslunni, sem ber yfirskriftina „Valkyrjur í banastuði“, segir Össur að þrjír ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi skarað fram úr í þættinum. Hann bendir á að lítið hafi borið á formanni Sjálfstæðisflokksins og telur hana eiga erfitt uppdráttar eftir að hafa, að hans mati, látið útgerðarauðvaldið draga sig inn í óvinsælt málþóf til varnar sérhagsmunum Samherja og sægreifa.
Össur hrósar sérstaklega Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, fyrir framkomu hennar í þættinum. Hann segir hana hafa verið hressa, skemmtilega og sýnt „pondus hins milda valds“. Hann nefnir að hún hafi í lok þáttarins tilkynnt um samþykkt jólabónus til um 35 þúsund aldraðra og öryrkja og um leið komið því skýrt á framfæri að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekki stutt þá greiðslu.
Þá fer hann einnig lofsamlegum orðum um Kristrúnu Frostadóttur, sem hann segir tala „eins og sú sem fædd er til að stýra þjóðum“, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem hann lýsir sem reynslumiklum stjórnmálamanni sem hafi haft yfirhöndina í orðaskiptum í þættinum.
Össur segir þó að mestu tíðindi Silfursins hafi komið fram þegar Þorgerður Katrín var spurð út í mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið árið 2027. Hann telur hana hafa svarað með þeim hætti að hún hafi í raun „kjaftað sig frá“ skýrri afstöðu í málinu, án þess að aðrir tækju sérstaklega eftir því.
Hann fjallar einnig um frammistöðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem hann segir hafa unnið hug og hjörtu vinstrisinnaðra áhorfenda með harðri gagnrýni á öfgahægri stefnu í Evrópu og „stórkarlapólitík“ Donalds Trump. Þá lýsir hann því sem sorglegu hvernig Sigurður Ingi hafi verið ýtt til hliðar innan Framsóknarflokksins af gömlum andstæðingum.
Að lokum fjallar Össur um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, og segir hann vera að gera sig „stofuhæfan“ með mögulega þátttöku í næstu ríkisstjórn í huga. Hann telur þó að Sigmundur standi frammi fyrir vanda vegna ummæla nýkjörins varaformanns flokksins, Snorra Más, sem hann túlkar sem vilja til úrsagnar Íslands úr Evrópska efnahagssvæðinu. Slíka afstöðu kallar Össur „heimskulegustu skoðun sem hægt er að hafa í íslenskum stjórnmálum í dag“.

Komment