
Össur Skarphéðinsson svarar pistli Heiðars Arnar Sigurfinnssonar, fréttastjóra RÚV um fréttir Ríkisútvarpsins um fortíð Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrverandi barnamálaráðherra.
Í pistli sem Heiðar Örn birti bæði á Vísi og á Facebook-síðunni sinni, fer hann yfir mál Ásthildar Lóu og stöðu fjölmiðla í dag en pistilinn heitir Lýðræðið deyr í myrkrinu. Hægt er að lesa pistilinn hér.
Össur Skarphéðinsson líffræðingur og fyrrverandi ráðherra skrifað athugasemd við pistil fréttastjórans og kjarnar þær tilfinningar sem fyrstu fréttir RÚV af máli Ásthildar Lóu, kveiktu í hjarta hans.
„Ég þekki sjálfur sem fyrrum ritstjóri þriggja dagblaða þráteflið við tímann þegar "deadline" nálgast. Ekki kemur mér til hugar að fréttamennirnir sem unnu fréttina, Sunna Karen og Helgi Seljan, hafi gert það af e-m annarlegum hvötum. En ég tók andköf undir fréttaflutningnum, og RÚV skildi mig eftir með þann skilning að ráðherrann hefði brotið lög, hennar biði hugsanlega fangelsisvist, og hún væri barnaperri, eða glæpon af þeirri sortinni sem við síst viljum. Svo var um þúsundir fleiri hlustenda. Fréttin skapaði hjá mér mjög neikvæðar tilfinningar í garð Ásthildar Lóu, sem ég svo skammaðist mín fyrir þegar fleiri upplýsingar komu fram. Svo var áreiðanlega um mun fleiri.“
Útskýrir Össur síðan hin hörðu viðbrögð við RÚV sem hann segir tvíþætta:
„Hin hörðu viðbrögð við RÚV stafa annars vegar frá þeim sem vilja helst sjá RÚV fara til fjandans og svo frá okkur hinum, sem þykir vænt um RÚV, höfum alltaf borið til þess traust og fannst skyndilega sem við stæðum á tæpu skæni í því efni. RÚV hefur misst mikið traust vegna þessa máls og hefur ekki reynt að koma til móts við hina vonsviknu stuðningsmenn með neinum útskýringum öðrum en þeim sem komu fram í viðtali við Sunnu, máli fulltrúa RÚV í Silfrinu og svo þessari grein þinni. Þær útskýringar má draga saman í eftirfarandi: "Við gerðum allt rétt". - En þúsundir gamalla stuðningsmanna RÚV eru á öðru máli, og hressilega hefur sneiðst um torfuna sem það stendur á. Vinur er sá er til vamms segir.“
Komment