
„Þetta gæti komið á óvart, en aðeins við fyrstu sýn,“ segir Vladimir Pútín Rússlandsforseti um endurteknar yfirlýsingar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um yfirtöku á Grænlandi.
Pútín vísaði einnig til Íslands, þegar hann ræddi þessi mál á norðurslóðaráðstefnu í Murmansk í Rússlandi í dag, samkvæmt fréttum AP. „Við erum að tala um alvarlegar fyrirætlanir Bandaríkjamanna þegar kemur að Grænlandi. Þessi áform eiga sér djúpar sögulegar rætur,“ sagði Pútín.
Með þessu virtist Rússlandsforseti leggja ákveðna blessun yfir fyrirætlanir Bandaríkjanna, en hann hefur gjarnan vísað til sögulegra ástæðna fyrir innrásum hans í önnur lönd. Þá felldi Pútín Ísland undir sama hatt.
„Staðreyndin er að Bandaríkin hafa haft slík áform frá 1860. Jafnvel þá voru bandarísk yfirvöld að velta fyrir sér að innlima Grænland og Ísland. En sú hugmynd fékk ekki stuðning frá þinginu á þeim tíma.“
Pútín segir rétt að taka Trump á orðinu.
„Það væru djúpstæð mistök að trúa því að þetta séu einhvers konar galgopalegar yfirlýsingar hjá nýjum stjórnvöldum í Bandaríkjunum.“
Komment