Vinnuhópur hefur nú verið stofnaður um þjónustu við sjúklinga með ME, langvinnt COVID, POTS og skylda sjúkdóma
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur falið landlækni að setja á fót og leiða vinnuhóp í þeim tilgangi að fjalla um heilbrigðisþjónustu við sjúklinga með sjúkdómaheilkenni sem á ensku kallast post-acute infection syndromes, skammstafað PAIS.
Kemur fram í máli Ölmu að undir þetta falli meðal annars langvinnt COVID, ME-sjúkdómur og POTS, en tekur fram að talsverð skörun geti verið þarna á milli og einkenni geta verið afar fjölbreytt og mismunandi.
Ráðherra segir að ljóst sé að bæta þurfi heilbrigðisþjónustu við þennan hóp; meðal annars með upplýsingagjöf og vegvísun, fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks, klínískum leiðbeiningum um greiningu og meðferð og skilgreiningu á því hvernig endurhæfingu og eftirfylgd ætti að vera háttað.
Segir ráherra einnig að liður í vinnu hópsins verði að kanna gögn um algengi þessara sjúkdóma, kortleggja hvaða þjónusta er í boði og hvað vanti og enn fremur hvernig heilbrigðisþjónustu við þennan fjölbreytta hóp verði best fyrir komið; en þá þurfi að samræma hugtakanotkun, sjúkdómaheiti og greiningarkóða:
„Það er mikilvægt að fá sem gleggsta mynd af því hve stór sá hópur er sem fellur hér undir, hvaða þjónustu þessir einstaklingar fá og hvað þarf að bæta. Oft glíma þessi sjúklingar við margvísleg einkenni sem gerir greiningu erfiða og meðferð sömuleiðis. Hér er um að ræða hóp sem þarf svo sannarlega á þjónustu og stuðningi að halda og við verðum að finna leiðir til að sinna þessum sjúklingum betur og á markvissari hátt með þverfaglegri þjónustu í heilbrigðiskerfinu“ sagði Alma D. Möller heilbrigðisráðherra og leggur hún áherslu á að vinnuhópurinn verði skipaður þannig að hann endurspegli sem breiðasta þekkingu á málefnum hópsins með hliðsjón af verkefnunum sem honum eru falin og verði að sjálfsögðu einnig skipaður fulltrúum sjúklinga.
Hún segir að einnig verði fulltrúar frá vísindasamfélaginu, en að ljóst sé að bæta þurfi þekkingu á þessum sjúkdómum.
Þá kemur fram að í erindi til Maríu Heimisdóttur landlæknis óskar heilbrigðisráðherra eftir því að hópurinn vinni rösklega og haldi henni upplýstri eftir því sem starfinu vindur fram.
Komment