
Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja sýknudómi yfir konunni sem var kölluð tálbeita í hinu svokallaða Gufunesmáli og fer fram á að hún verði sakfelld. Jafnframt hafa þrír aðrir sakborningar í málinu áfrýjað þungum dómum sínum. Vísir sagði fyrst frá málinu.
Í gær var greint frá því að þeir Lúkas Geir Ingvarsson, Stefán Blackburn og Matthías Björn Erlingsson hefðu áfrýjað dómi Héraðsdóms Suðurlands vegna dauða Hjörleifs Hauks Guðmundssonar. Stefán og Lúkas Geir fengu sautján ára fangelsisdóm fyrir að hafa rænt Hjörleifi af heimili hans í Þorlákshöfn, beitt hann harðræði og skilið hann eftir illa leikinn og í lífshættu á göngustíg í Gufunesi. Matthías Björn var dæmdur í fjórtán ára fangelsi, þar sem hann kom inn í málið eftir að Hjörleifur hafði þegar verið sviptur frelsi.
Sýkna og skilorðsbundin refsing
Auk þeirra voru tveir einstaklingar ákærðir. Átján ára karlmaður var sakfelldur fyrir peningaþvætti eftir að „hafa tekið við greiðslu þriggja milljóna króna inn á bankareikning sinn“, en sagðist „ekki hafa vitað að um illa fengið fé væri að ræða“. Honum var ekki ákveðin fangelsisvist heldur var refsingu hans frestað og skilorðsbundin til tveggja ára.
Tvítug kona var hins vegar sýknuð af ákæru um hlutdeild í ráni og frelsissviptingu, en hún hafði sett sig í samband við Hjörleif og fengið hann til að fara í bílinn. Í dómi kom fram að ekki hefði verið sannað að ásetningur hennar hefði staðið til þess að fórnarlambið yrði beitt ofbeldi. Þá var tekið fram að háttsemin gæti fallið undir hlutdeild í fjárkúgun, sem getur varðað allt að sex ára fangelsi.
Ríkissaksóknari krefst sakfellingar
Í svari Ríkissaksóknara við fyrirspurn Vísis segir að embættið hafi áfrýjað á hendur þeim sakborningi sem var sýknaður og krafist sakfellingar fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæru.
Konan er ákærð fyrir hlutdeild í frelsissviptingu og ráni með því að: „hafa sett sig í samband við Hjörleif Hauk og fengið hann til að yfirgefa heimili sitt og fara yfir í bifreið, vitandi að til stæði að svipta hann frelsi sínu og beita hann ofbeldi í því skyni að hafa af honum fjármuni með ólögmætum hætti.“

Komment