
Einn fagran dag í lok september var læknaneminn Sergei á leið í vinnuna í rússnesku borginni Kamensk-Uralskí. Hann sat í strætó og fletti símanum sínum þegar hann rakst á myndir af merki úkraínska Azov-sveitarinnar og rússneska sjálfboðaliðasveitarinnar sem kallar sig RDK (Russian Volunteer Corps) og berst með Úkraínu
„Hverjir eru þessir gaurar aftur?“ hugsaði Sergei og leitaði uppi upplýsingar um hópana áður en hann setti símann aftur í vasan.
Skömmu síðar var hann handtekinn af rússneskum öryggisstofnunum, ákærður fyrir að hafa brotið ný lög sem banna leit af „öfgafullu“ efni á netinu. Bæði Azov og RDK eru skilgreindir sem ólögleg samtök í Rússlandi. Sergei játaði að hafa flett upp á þeim en var látinn laus eftir yfirheyrslu.
Mál hans fór fyrir dóm 10. október. Fyrsta þinghaldið fór fram 14. október þegar verjendur hans kröfðust þess að kallað yrði eftir yfirheyrslu yfir þeim öryggisþjónustumönnum sem tóku skýrslu af Sergei. Þegar þeir mættu ekki fyrir dóm 6. nóvember ákvað dómarinn að vísa málinu aftur til lögreglu á þeim forsendum að ekki hefði verið sýnt fram á illan ásetning hjá Sergei, sem er lykilatriði samkvæmt nýju lögunum sem tóku gildi 1. september.
Rússnesk yfirvöld hafa reglulega sótt borgara til saka fyrir pólitískan málflutning. Það sem vekur athygli í þessu tilviki er ekki að Sergei hafi verið handtekinn, heldur hve hratt það gerðist. Öryggisþjónustan (FSB) hafði hann í haldi aðeins nokkrum klukkustundum eftir að hann skoðaði efnið á símanum. Samkvæmt miðlinum Agentstvo bárust líklegast upplýsingar um netnotkun hans beint frá farsímafyrirtækinu T2.
Þetta er eitt fyrsta dæmið um hvernig nýju lögin um bann við netleit af „öfgaefni“ eru framkvæmd, og þótt óljóst sé hversu víðtækt lögreglan muni beita þeim, sýnir mál Sergeis að neteftirlit yfirvalda getur brugðist við nær samstundis. Lögmaðurinn Jevgení Smírnov hjá mannréttindasamtökunum Department One sagði við Agentstvo að saksóknir af þessu tagi gætu orðið útbreiddar ef fjarskiptafyrirtæki eins og T2 halda áfram að senda netnotkunargögn viðskiptavina til yfirvalda.
Á ríkisstjórnarfundi í sumar sagði stafrænn þróunarráðherra Rússlands, Maksút Sjadajev, við Vladimir Pútín að lögin yrðu ekki notuð gegn borgurum sem „rekast óvart“ á bannað efni. En þegar erfitt er að meta hvort leit sé gerð af ásetningi eða ekki, virðist sem heimsókn frá öryggisþjónustunni sé engu að síður raunverulegur möguleiki.

Komment