
Augnablikið þegar maður yfirgaf kærustu sína á ísköldu fjalli og skildi hana eftir til að deyja var fangað á hrollvekjandi upptöku úr vefmyndavél sem nú hefur verið opinberuð. Thomas Plamberger, 36 ára, og kærasta hans, 33 ára gamla Kerstin Gurtner, voru í janúar að klífa hæsta fjall Austurríkis, Grossglockner.
Kerstin varð úti aðeins um 45 metrum frá tindinum, í -20°C frosti, eftir að hafa verið skilin eftir „óvarin, örþreytt og með ofkælingu“, að sögn saksóknara. Plamberger hefur verið ákærður fyrir manndráp af stórfelldu gáleysi í tengslum við atburðinn, en hann neitar sök. Atvikið var tekið upp með vefmyndavél sem sendir út frá fjallinu, en þar sjást ljós frá höfuðljósum þeirra á leið upp þann 18. janúar.
Um það bil sex klukkustundum eftir að fjallgangan hófst fóru ljós þeirra að dofna vegna rafhlöðunnar, og Kerstin fór að eiga í erfiðleikum. Plamberger hvatti hana til að halda áfram og hún reyndi að klára síðasta kaflann í allt að 75 km/klst vindi, klædd aðeins á fótum í mjúka snjóskó sem eru ekki ætlaðir fyrir slíkt landslag í þeirri hæð. Hún gat að lokum ekki haldið áfram í myrkrinu, orðin örþreytt, ofkæld og ringluð þegar nóttin færðist yfir. Um klukkan 22:50 reyndu björgunaraðilar að ná sambandi við manninn, en að sögn saksóknara hafði hann slökkt á símanum. Hitastig féll niður fyrir frostmark og vindurinn jókst.
Að sögn saksóknara var Plamberger reyndur fjallgöngumaður og fór á brott til að leita hjálpar. Hins vegar hjálpaði hann henni hvorki að finna skjól fyrir vindi né að vefja sig inn í álteppi. Vefmyndavélin náði síðan myndum af þyrlu að leita þeirra í fjallshlíðunum.
Klukkan tvö um nóttina hóf Plamberger að ganga einn niður fjallið, og samkvæmt upptökunum sést ljós frá hans höfuðljósi ferðast niður hlíðina, en ljósið frá Kerstin dofnar og slokknar þegar rafhlaðan klárast. Um kl. 03:30 náði hann loks sambandi við fjallabjörgunarsveit, en slökkti síðan aftur á símanum, að því er haldið fram.
Björgunarsveitir komust ekki að Kerstin fyrr en morguninn eftir vegna fárviðris, en fundu hana þá látna rétt neðan við tindinn. Plamberger, sem talinn er bera ábyrgð sem „leiðangursstjóri“, er sakaður um að hafa hunsað reynsluleysi kærustu sinnar og ekki snúið við þrátt fyrir myrkur.
Saksóknarar segja jafnframt að hann hafi ekki hringt í neyðarþjónustu nægilega snemma. Þau voru sögð hafa orðið strandaglópar um kl. 20:50, en hann hafi ekkert sagt þegar lögregluþyrla fór yfir kl. 22:50. Fjallalögregla reyndi ítrekað að ná í hann, og hann hafi loks svarað kl. 00:35, nær fjórum klukkustundum eftir að þau festust. Hann hafi tekið hljóðið af símanum og ekki heyrt í frekari símtölum. Ekki fyrr en kl. 03:30 ákvað hann að láta björgunaraðila vita, þá hafði hann yfirgefið kærustu sína.
Samkvæmt ákæru „sneri hann við“ og yfirgaf kærustu sína. Í yfirlýsingu saksóknara segir:
„Um klukkan tvö að nóttu yfirgaf ákærði kærustu sína óvarða, örþreytta, ofkælda og ringlaða í um 50 metra fjarlægð frá tindinum á Grossglockner. Konan fraus í hel.“ Þar segir einnig að Plamberger, sem skipulagði leiðangurinn og var mjög reyndur í háfjallagöngum, hafi borið ábyrgð á ferðinni og ekki tekið mið af algjöru reynsluleysi kærustu sinnar.
Plamberger hefur í gegnum lögmann sinn, Kurt Jelinek, neitað öllum ásökunum og heldur því fram að hann hafi farið eftir hjálp og að dauði Kerstin sé „sorglegt, óumflýjanlegt slys“. Réttarhöld yfir honum hefjast í febrúar og gæti hann hlotið allt að þrjú ár í fangelsi verði hann sakfelldur.
Vinir Kerstin hafa birt innilegar kveðjur á samfélagsmiðlum hennar. Einn skrifaði: „Hvíl í friði í himnaríki.“ Annar sagði: „Bak við tár sorgarinnar býr bros minninganna.“ Þriðji vinur bætti við: „Við hugsum enn svo oft til þín.“

Komment