
Pétur Eggerz Pétursson, aðgerðarsinni, tónlistarmaður og hreyfihönnuður, segir Guðlaug Þór Þórðarson vera landráðamann í myndskeiði sem vakið hefur gríðarmikla athygli á samfélagsmiðlum.
Í myndskeiðinu rekur Pétur ástæður þess að hann telji Guðlaug Þór vera landráðamann.
„Vissuð þið að þessi maður hér, hann Guðlaugur Þór, hann gerðist raunverulega sekur um landráð 2017. Maðurinn var utanríkisráðherra og fór á bakvið Alþingi á fund með umboðsmanni Bandaríkjanna.“
Pétur heldur áfram:
„Hann heldur þessu leyndu frá bæði Alþingi og almenningi en á þessum fundi skrifa þeir undir nýjan varnarsamning.“
Birtir Pétur síðan stutt brot úr fréttaskýringu Kveiks á RÚV, sem birtist í apríl á síðasta ári, um þennan leynisamning sem Guðlaugur Þór gerði við Bandaríkjamenn.
Og heldur síðan áfram reiðilestrinum:
„Þessi nýji ólöglegi varnarsamningur gefur Bandaríkjamönnum fulla heimild til þess að koma hvert sem er á Íslandi og hvenær sem er og setja upp hernaðarbúðir. Þannig að ef Bandaríkin ætluðu að fara í hernaðaraðgerðir gegn Grænlandi þá gera þau það héðan. Það sem er ennþá ógeðslegra er að þessi samningur fríar Bandaríkjamenn alfarið allri ábyrgð. Þannig að ef það eru sprengjuárásir hér á Íslandi eða það verður innviðatjón, hvað sem getur fylgt þessum hernaði, þá skuldar Bandaríkin Íslandi ekki krónu. Það er engin ábyrgð á Bandaríkjunum, hún er öll á okkur.“
Að lokum setur hann fréttir af nýjum hótunum Donalds Trump gagnvart þeim þjóðum sem verja hagsmuni Grænlands, í samhengi við varnarsamning Guðlaugs Þórs.
„Þetta er raunverulegt landráð. Þannig að ef þið eruð að velta fyrir ykkur af hverju Ísland er ekki á lista með Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Englandi, Þýskalandi, yfir þau lönd sem Bandaríkin ætla að setja verndartolla á af út af því að þau standa með Grænlandi, þá er það út af því að Ísland er í eigu Bandaríkjanna af því að Guðlaugur Þór er landráðamaður sem framseldi Ísland á bakvið Alþingi og á bakvið íslensku þjóðina. Þannig að ef þið mætið honum á förnum vegi, getið þið endilega minnt hann á það að við vitum að hann er fucking föðurlandssvikari.“
Myndskeið Péturs hefur fengið mikla athygli en um 4.200 manns hafa líkað við hana og 25 hafa deilt henni.

Komment