Mikil umræða skapaðist á Facebook-síðu fjölmiðlamannsins Egils Helgasonar í gær í kjölfar þess að hann ræddi myndband sem hefur verið í dreifingu á samfélagsmiðlum. Í myndbandinu eru áhorfendur hvattir til að kjósa Miðflokkinn og eru sýnd myndskeið af Íslandi á síðustu öld og gefið í skyn að allt hafi verið betra á þeim tíma.
Einn af þeim sem tjáir sig um málið er stjórnmála- og fjölmiðlamaðurinn Gunnar Smári Egilsson.
„Þetta er sprottið upp úr karllægri kristinni hvítri yfirburðarhyggju sem Snorri Másson vill útbreiða á Íslandi, klæddur eins mormónatrúboði,“ skrifar Gunnar Smári. „Kenningin er að allt hafi verið betra þegar allir voru kristnir, hvítir og karlar, engar tuðandi kerlingar á Lionsfundum. Það er svo magnað að furðulegasta fólk telur þetta ákall tímans, að við höfum syndgað gegn almættinu með því að vera of umburðarlynd of lengi (álíka vitlaus kenning og að frjálslyndið í Weimer hafi verið kveikjan að nazismanum),“ heldur hann áfram.
„Nú er komið að dómsdegi; transfólk, konur, samkynhneigðir, brúnir, feitir, veikir og önnur unzuverlässige elemente skulu hreinsuð út úr þjóðarlíkamanum, fólk sem fer í taugarnar á Trump og Snorra og þeim finnst sér ekki samboðið. Fólk getur verið voða hissa yfir að við séum virkilega komin á þennan stað, en þannig er það bara. Hvað ætlarðu að gera í því?“ spyr hann að lokum.


Komment