
Tónlistarmaðurinn Snorri Helgason sagði frá andláti föður síns, Helga Péturssyni á útgáfutónleikum sínum í Austurbæjarbíói í gærkvöldi og tileinkaði lag föður sínum.
Troðfullt var á útgáfutónleikum Snorra Helgasonar en hann var að gefa út plötuna Borgartún. Tónleikarnir voru haldnir í Austurbæjarbíói í gærkvöldi en andrúmsloftið var mjög þægilegt og innilegt, kerti á borðum og gleði yfir mannskapnum.
Þegar Snorri hafði leikið nokkur lög sagðist hann vilja tileinka næsta lag föður sínum, „sem lést í nótt“. Bætti hann við: „Honum fannst svo gaman að vera til“.
Síðar á tónleikunum reisti Snorri bjórflösku á loft og bað tónleikargesti um að skála fyrir „Pabba P“ og tóku gestirnir afar vel í það enda um ástsælan tónlistarmann að ræða.
Með Snorra spilaði hljómsveitin Snákarnir og var gerður afar góður rómur að spilamennsku þeirra sem og söng Snorra. Þá stigu tveir gestir á svið með Snorra en það voru þau Bríet og MC Gauti. Þá hitaði undrabarnið, hinn 14 ára Gummi Binni upp fyrir Snorra en hann tók þrjú Bob Dylan lög við fádæma viðtökur.

Komment