
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vekur athygli á óvenjulegum eldsupptökum sem nýlega urðu í húsi í Reykjavík. Eldurinn kviknaði þegar sólin skein á vatnsfyllta glerkúlu sem stóð í glugga hússins. Við það myndaðist brennipunktur á hillu rétt innan við gluggakistuna, þar sem tuska lá, og kviknaði í henni.
Í tilkynningu lögreglu segir að sem betur fer hafi ekki orðið mikið tjón í þetta sinn, en svipuð mál hafi komið upp áður. Nefnt er dæmi þar sem sólargeislar féllu á snyrtispegil á sófaborði. Við það myndaðist brennipunktur í stól í herberginu og eldur kviknaði, en slokknaði áður en hann náði að breiðast út.
Lögreglan minnir á að íslenska sólarljósið sé ekki hættulaust, þrátt fyrir að margir telji það saklaust miðað við sólríkari lönd. Hvetur hún fólk til að huga að því hvað er geymt í gluggum og í námunda við þá, þar sem eldhætta geti skapast við ákveðnar aðstæður.
Komment